Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra opnar ráðstefnuna en á eftir honum kemur Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, og segir frá áherslunum á næstu árum. Næst verður flutt kynning á verkefni Rauða krossins sem ber heitið 3 dagar, sem gengur út á að hvert og eitt heimili þurfi að geta verið sjálfu sér nægt í þrjá daga ef hamfarir og neyðarástand dynur yfir.
Fram kemur í tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra að á ráðstefnunni verði einnig rætt um áhættustjórnun og fer bæjarstjóri Reykjanesbæjar yfir það hvernig sé að stýra bæjarfélagi í almannavarnarástandi. Einnig ætlar íbúi og foreldri í Grindavík að gefa ráðstefnugestum innsýn í hvernig fjölskyldulífið var þegar jarðskjálftar gerðu íbúum lífið leitt og þegar eldgos birtist í bakgarðinum.
Sömuleiðis verður ný vefgátt sem almannavarnir opnuðu kynnt en þar er sveitarfélögum einfölduð sú vinna að greina og leysa þær krísur sem komi upp á hverju svæði fyrir sig.