Innlent

Störfin fyrir flótta­menn allt frá ferða­þjónustu til há­tækni­starfa

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. Stöð 2

Um tvö hundruð störf eru nú í boði fyrir flóttafólk hér á landi eftir að Vinnumálastofnun auglýsti eftir störfum fyrir hópinn. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir miklu máli skipta fyrir aðlögun fólksins hér á landi að geta fengið vinnu.

Það var í byrjun apríl sem auglýsingin var birt og voru viðbrögðin strax góð.

„Það hefur fjölgað mjög mikið flóttamönnum hér á vinnumarkaði frá því um áramót, eða sem er að koma hingað í atvinnuleit, þannig við vorum með í pípunum að auglýsa eftir störfum fyrir þetta fólk,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

„Við drifum nú í því þegar þessi ósköp dundu yfir í Úkraínu og við sáum fram á aukinn fjölda,“ segir hún enn fremur

Unnur segir þann hóp flóttafólks sem er í atvinnuleit hér á landi nokkuð stóran.

„Þetta eru svona þrjú hundruð manns plús, það er nú þannig. En það komu inn alveg tvö hundruð störf í kjölfar auglýsingarinnar þannig að nú erum við bara að miðla,“ segir hún.

Hún segir störfin mörg og ólík sem í boði eru, allt frá ferðaþjónustu til hátæknistarfa.

„Það hefur alveg verið reynslan að það að koma fólki sem fyrst inn á vinnumarkað það hefur verið besta leiðin til þess að það samlagist samfélaginu og læri tungumálið og svo framvegis,“ segir Unnur.

Hún segir að dregið hafi verulega úr atvinnuleysi síðan síðasta haust en það er nú í kringum fimm prósent. Staðan sé nú nokkuð góð á vinnumarkaðinum.

„Hún fer batnandi. Við bara gerum okkur vonir um það að atvinnuleysi haldi áfram að minnka og nú með enn meiri hraða þegar líður á vor á sumar. Mér sýnist allt vera farið af stað í ferðamennskunni og fleiri stöðum,“ segir hún.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×