Innlent

„Bæði léttir og um leið smá viðskilnaðarkvíði“

Eiður Þór Árnason og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Margir hafa gert það að páskahefð að mæta í Hallgrímskirkju til að hlýða á lestur Sigurðar Skúlasonar.
Margir hafa gert það að páskahefð að mæta í Hallgrímskirkju til að hlýða á lestur Sigurðar Skúlasonar. Vísir

Sigurður Skúlason leikari flutti alla Passíusálmana í Hallgrímskirkju í dag í síðasta sinn. Lesturinn tók rúmar fimm klukkustundir og var Sigurður furðu brattur eftir þetta mikla þrekvirki.

Rúmlega þúsund manns komu í kirkjuna til að hlýða á lesturinn og var stöðugur straumur þar í dag. Þetta var í tólfta sinn sem leikarinn flutti sálmana í heild sinni og segir það skrítna tilfinningu að vera kominn að leiðarlokum.

Það er bæði léttir og um leið smá viðskilnaðarkvíði. Þetta er búið að vera að þróast þetta samband við Hallgrím og Passíusálmanna, við píslarsöguna, og það hefur bara dýpkað og batnað með árunum. Þannig að það er bæði og léttir og eftirsjá,“ sagði Sigurður í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Aðspurður um hvernig þetta hafi upphaflega komið til segir hann að það hafi fyrst og fremst verið áskorunin sjálf sem hafi knúið hann til þess að láta á þetta reyna.

„Þetta er svo mikil glíma fyrir mann sem er að fást við að nota röddina, leika, eða lesa upp og fyrir utan það að reyna að ná skilningi á trúarbrögðunum eða trú Hallgríms Péturssonar og ást hans á Jesú Kristi.“

Sigurður endaði á því að taka lokaerindið í 48. sálmi og gerði um leið orð Hallgríms að sínum.

Hjartans innstu æðar mínar

elski, lofi, prísi þig.

En hjartablóð og benjar þínar

blessi, hressi, græði mig.

Hjartans þýðar þakkir fínar

þér sé, gæskan eilíflig.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.