Bíó og sjónvarp

Volaða land keppir í Cannes

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin ber heitið Godland á ensku.
Myndin ber heitið Godland á ensku. Volaða land

Kvikmyndin Volaða land, eftir Hlyn Pálmason, hefur verið valin til að keppa á Cannes-kvikmyndahátíðinni í maí. Hátíðin er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.

Kvikmyndin fjallar um ungan danskan prest sem ferðast til Íslands undir lok 19. aldar með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna.

Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn smám saman tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Heimsfrumsýnd í Cannes

Kvikmyndin verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni sem fram fer dagana 17. til 28. maí en Hlynur leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni.

Fyrri verk Hlyns hafa víða unnið til verðlauna. Kvikmyndin Vetrarbræður tók þátt í aðalkeppni Locarno árið 2017 og kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur keppti í Cannes árið 2019.

Með aðalhlutverk fara þeir Elliott Crosset Hove og Ingvar E. Sigurðsson. Þá fara Hilmar Guðjónsson, Jacob Hauberg Lohman, Vic Carmen Sonne og Ída Mekkín Hlynsdóttir með aukahlutverk í myndinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.