Nokkur tíðindi eru í nýrri könnun Maskínu á fylgi flokkanna sem var gerð á dögunum 17. mars til 12. apríl. Í henni er litið sérstaklega til breytinga eftir 6. apríl þegar listi yfir kaupendur í lokuðu útboði á hlutum ríkisins í Íslandsbanka var birtur en á sama tíma var umræða um ummæli sem innviðaráðherra lét falla á Búnaðarþingi í hámæli.
Málunum virðast fylgja svipaðar pólitískar afleiðingar fyrir Vinstri Græn og Framsókn. Vinstri Græn tapa 2,6 prósentustigum og fylgið stendur í einungis sjö prósentum – sem er það lægsta sem flokkurinn hefur mælst með í lengri tíma.
Framsókn tapar 2,7 stigum og mælist með 13,6 prósent. Minnst áhrif virðast málin hafa á Sjálfstæðisflokkinn sem lækkar um 2,3 prósentustig og mælist með tæp 21 prósent.
Á sama tíma stóreykst fylgi stjórnarandstöðuflokka sem hafa haft uppi háværa gagnrýni vegna málanna. Samfylking fer úr tæpum 11,7 prósentum í sextán prósent og fylgi Pírata eykst um heil 6,7 prósentustig og stendur í tæpum átján prósentum. Flokkurinn er því stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og hefur ekki mælst hærri í langan tíma.

Aðrir stjórnarandstöðuflokkar virðast ekki græða eins mikið á umrótinu. Fylgi Viðreisnar hækkar lítillega og stendur í ellefu og hálfu prósenti, Miðflokkur og lækkar aðeins niður í 3,9 prósent en Flokkur Fólksins tapar umtalsverðu fylgi og fer úr tæpum níu prósentum í fimm prósent.