Innlent

Lést í snjóflóðinu í gær

Eiður Þór Árnason skrifar
Kerti123

Karlmaður lést í snjóflóðinu sem féll í Svarfaðardal í nágrenni Dalvíkur í gærkvöldi. Þrír lentu í flóðinu en um er að ræða bandaríska ferðamenn sem allir fæddust árið 1988. Allir hlutu þeir alvarlega áverka í slysinu og var einn þeirra látinn þegar að var komið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Hinn látni var einhleypur og barnlaus. Hinir tveir voru fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri í gær og annar þeirra síðar á Landspítalann. Frekari upplýsingar um afdrif hans liggja ekki fyrir hjá lögreglu á þessu stigi. Mennirnir þrír voru að sögn lögreglu allir vanir fjallamenn og vel búnir. 

„Nokkurn tíma tók að afla upplýsinga um nánustu aðstandendur þess látna í Bandaríkjunum. Er þær upplýsingar lágu fyrir í nótt var óskað eftir aðstoð hjá sendiráði Bandaríkjanna við að tilkynna aðstandendum um andlátið,“ segir í tilkynningu lögreglu. Viðbragðsaðilum barst tilkynning um snjóflóðið klukkan 19:10 í gær frá einum þeirra sem lenti í flóðinu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á áttunda tímanum í gær vegna snjóflóðsins. Hópslysaáætlun almannavarna var svo virkjuð og björgunarsveitir frá Dalvík, Siglufirði og Akureyri kallaðar út. Er áætlað að um 130 viðbragðsaðilar hafi tekið þátt í aðgerðunum en aðgerð björgunarsveitarmanna lauk nokkru fyrir miðnætti. Hefðbundin slysarannsókn heldur nú áfram.


Tengdar fréttir

Einn fluttur í sjúkra­flugi á Land­spítalann

Aðgerðum björgunarsveitarmanna í Svarfaðardal í nágrenni Dalvíkur lauk nokkru fyrir miðnætti, þar sem þrír bandarískir ferðamenn höfðu lent í snjóflóði um klukkan sjö í gærkvöldi. Einn þeirra var fluttur á Landspítalann með sjúkraflugi og tveir á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Allir þrír sem lentu í snjó­flóðinu af er­lendu bergi brotnir

Þrír menn lentu í snjóflóði í Svarfaðardal í nágrenni Dalvíkur um klukkan sjö í kvöld. Þeir eru allir af erlendu bergi brotnir. Tveir þeirra eru slasaðir, annar var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Sjúkrahúsið á Akureyri og hinir tveir með sjúkrabílum á sjúkrahúsið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×