Innlent

Allir þrír sem lentu í snjó­flóðinu af er­lendu bergi brotnir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Dalvík eftir óveður. Myndin tengist fréttinni ekki beint. 
Dalvík eftir óveður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.  Vísir/EGill

Þrír menn lentu í snjóflóði í Svarfaðardal í nágrenni Dalvíkur um klukkan sjö í kvöld. Þeir eru allir af erlendu bergi brotnir. Tveir þeirra eru slasaðir, annar var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Sjúkrahúsið á Akureyri og hinir tveir með sjúkrabílum á sjúkrahúsið.

Fram kemur í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra að þyrlan, með tvo lækna innanborðs, hafi lent á vettvangi um klukkan 21:10 og flutt einn mannanna til aðhlynningar á Akureyri. 

Viðbragðsaðilum barst tilkynning klukkan 19:10 frá einum þeirra sem lenti í flóðinu. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra segir í tilkynningu á Facebook að þegar fyrstu viðbragðsaðlar hafi komið á vettvang klukkan 19:55 hafi strax tveir menn fundist og var annar þeirra slasaður. Stuttu seinna fannst sá þriðji í jaðri flóðsins og var hann einnig slasaður.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir það í samtali við fréttastofu að þyrlan hafi verið kölluð út á áttunda tímanum vegna snjóflóðsins. 

Þá var hósplysaáætlun almannavarna virkjuð vegna flóðsins og björgunarsveitir frá Dalvík, Siglufirði og Akureyri kallaðar út. Áætlað er að um 130 viðbragðsaðilar hafi komið að aðgerðum í Svarfaðardal. 

Lögreglan hyggst ekki veita frekari upplýsingar um málið eða líðan hinna slösuðu að svo stöddu.

 Fréttin var uppfærð klukkan 21.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×