Innlent

Vilja til Rúss­lands en flykkjast til Ís­lands í sumar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Laxveiðisumarið fer senn að hefjast á Íslandi. Vorveiði í sjóbirting er þegar komin á fullt.
Laxveiðisumarið fer senn að hefjast á Íslandi. Vorveiði í sjóbirting er þegar komin á fullt. vísir/Jóhann K

Ís­land er orðið eftir­sóttasta lax­veiði­landið nú þegar erfitt er að komast til Rúss­lands að veiða. Það stefnir allt í gott lax­veiðisumar í ár.

Vor­veiðin er komin á fullt og keppast veiði­menn nú við að slíta sjó­birting upp úr ám landsins.

„Þetta er allt að byrja. Ég meina menn byrjuðu núna 1. apríl og það byrjaði bara á­gæt­lega í sjó­birtingi víða. Og tíðar­farið gott,“ segir Þröstur Elliða­son, eig­andi Veiði­þjónustunnar Strengja.

Síðustu tvö ár hafa ekki verið upp á marga fiska í lax­veiðinni - bók­staf­lega. En Þröstur segir horfurnar betri nú. Það stefnir allt í gott lax­veiði­ár. Að minnsta kosti virðist þetta vera árið þar sem ó­hætt er að seigja að Ís­land er eftir­sóttasti kosturinn fyrir lax­veiði­menn.

„Ég held að það sé nokkuð lík­legt. Alla­vega á meðan staðan er svona í Rúss­landi,“ segir Þröstur.

Ekki um auðugan garð að gresja

Salan á veiði­leyfum gengur ansi vel hjá flestum leigu­tökum og nú eru hópar er­lendra veiði­manna sem fara venju­lega til Rúss­lands að veiða farnir að bóka veiði á Ís­landi.

„Já, já, það er eitt­hvað um það. Þetta er svona rétt að byrja. Við erum að­eins varir við það. Mér heyrist svona á aðilum þarna úti í Rúss­landi að þeir hafa hangið í að halda hugsan­legum mögu­leika opnum en mér skilst að þetta sé nú allt að loka hvað úr hverju þarna uppi í Rúss­landi,“ segir Þröstur.

Þröstur Elliðason segir Íslendingum hafi fjölgað í laxveiðinni á síðustu árum.vísir/sigurjón

Allt stefnir í það að lax­veiði­árnar í Rúss­landi loki í sumar fyrir ferða­menn frá hinum ýmsu þjóðum.

„Og þá er ekkert um auðugan garð að gresja. Ís­land og Kóla­skagi í Rúss­landi hafa verið bestu lax­veiði­svæðin. Noregur, Skot­land og Kanada... veiðin hefur ekki verið mjög góð þar,“ segir Þröstur.

Og að­sóknin virðist ætla að verða meiri en nokkru sinni því til við­bótar við er­lenda veiði­menn er auð­vitað mikill fjöldi ís­lenskra veiði­manna.

Vin­sældir lax­veiði hafa nefni­lega aukist mjög á Ís­landi á allra síðustu árum.

„Það má segja að við Co­vidið hafi margir ekki farið út fyrir land­steina og leitað hérna að af­þreyingu innan­lands og sú af­þreying hefur verið þar á meðal í stang­veiðinni. Og við höfum fundið það,“ segir Þröstur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×