Innlent

Net­verjar mót­mæla niður­skurði hjá Strætó: „Á hvaða brengluðu tíma­línu lifi ég?“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Leið 36 er meðal þeirra Strætóleiða sem hættir núna fyrr að ganga. 
Leið 36 er meðal þeirra Strætóleiða sem hættir núna fyrr að ganga.  Vísir/Vilhelm

Netverjar eru síður en svo sáttir með breytta ferðaáætlun Strætó sem var kynnt í gær. Strætómál og leigubílaleysi hefur verið til mikillar umræðu, til að mynda á Twitter, og segja netverjar um öryggismál að ræða. 

Greint var frá því í gær að breyta eigi áætlunarferðum Strætó á nokkrum leiðum sem farnar eru hjá fyrirtækinu. Þar á meðal eru leiðir 7, 11, 12, 15 og 28. Breytingarnar, sem felast í styttum þjónustutíma og færri ferðum, eiga að spara Strætó rúmlega 200 milljónir í rekstri á þessu ári. 

Breytingarnar tóku gildi í morgun en það er ekki bara Strætó og skert þjónusta hans sem er til umræðu. Svo virðist sem alvarlegur leigubílaskortur sé í höfuðborginni, ef marka má umræðuna á samfélagsmiðlum. 

Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, stjórnarmaður í Félagi ungra jafnaðarmanna, skrifar á Twitter að það sé orðið lýðheilsumál að leysa leigubílaflækjuna. Hann skrifar í gríni að fólk sé að deyja úr ofkælingu í röðinni. 

Hann bætir því svo við að það þurfi að dæla peningum í strætó í smá stund til að láta þjónustuna virka og þá sé það komið. Fleiri taka undir það sjónarmið og Ottarr Makuch bætir við að sniðugt væri að hafa Strætó gjaldfrjálsan í nokur ár til að ala upp kynslóð sem venjist almenningssamgöngum. 

Varaþingmaðurinn Lenya Rún Taha Karim skrifar að almenningssamgöngur eigi ekki að vera settar á fót til að skila hagnaði, þær séu hluti af almannaþjónustu. 

Haukur Bragason bendir á að verði þjónusta Strætó alltaf verri og verri muni færri og færri nota hana. 

Ólafur Örn Ólafsson, veitingamaður, segist hafa reynt að taka leigubíl heim úr vinnunni í gærkvöldi en aldrei fengið svar. Hann hafi skráð sig á Facebook-hópinn Skutlarar, fengið bíl og verið kominn heim á korteri. 

Nokkrir svara í athugasemdum að þeir hafi lent í því sama. 

Hexía skrifar á Twitter að leigubílaleysið í miðbænum sé komið úr böndunum og kallar eftir endurkomu næturstrætós. Þetta sé öryggisatriði, sérstaklega fyrir kvenfólk. 

Donna segist skeptísk á Borgarlínu og spyr hvernig hún eigi að ganga upp þegar 200 milljóna króna rekstrarhalli verður Strætó að falli. 

Elísabet skrifar að niðurskurðurinn hjá Strætó sé súrrealískur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×