Innlent

Strætó miður sín vegna Klapp-vanda­­mála

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hafnað - Enginn gildur miði. Skjámynd sem hefur komið upp hjá allt of mörgum sem eru í raun með gildan miða vegna bilunar í Klapp-kerfinu.
Hafnað - Enginn gildur miði. Skjámynd sem hefur komið upp hjá allt of mörgum sem eru í raun með gildan miða vegna bilunar í Klapp-kerfinu. vísir

Nýtt greiðslu­kerfi Strætó hefur farið brösug­lega af stað og mörgum verið meinaður að­gangur að vögnum vegna bilunar í kerfinu. Strætó lofar miklum betr­um­bótum strax í næstu viku.

Þessi leiðin­legi rauði fýlu­kall, sem sést á skjánum í strætó á myndinni hér að ofan, hefur síðustu vikurnar hrellt marga far­þega strætó sem reyna að greiða fyrir far sitt í gegn um nýja greiðslu­kerfið - Klapp.

Kerfið var inn­leitt fyrir síðustu jól en hefur ekki farið alveg nógu vel af stað.

„Nei, nei það er alveg rétt. Við höfum átt í á­kveðnum erfið­leikum með þetta. Við getum sagt kannski bæði ó­væntum og væntum vegna þess að þetta er gríðar­lega mikil breyting,“ segir Jóhannes Svavar Rúnars­son, fram­kvæmda­stjóri Strætó.

Jóhannes segir nýja uppfærslu á Klapp á leiðinni. Nú þegar sé búið að leysa stærstu vandamálin.Strætó

Allt of mörg tilfelli þar sem fólki er ekki hleypt um borð

Og við­skipta­vinir hafa látið í sér heyra. Fjöldi fólks hefur kvartað yfir nýja kerfinu og gagn­rýnt það á sam­fé­lags­miðlum - gagn­rýni sem Jóhannes segir að hafi náð eyrum Strætó.

„Já, já. Við höfum heyrt af fullt af ó­á­nægju og skiljum það bara mjög vel. Og erum svo sem bara miður okkar að þetta hafi ekki bara gengið svona einn, tveir og þrír. En þetta er svona það sem gerist kannski stundum í þessum stóru hug­búnaðar­verk­efnum og mjög flóknu,“ segir Jóhannes.

Nokkur vanda­mál hafi komið upp eftir að kerfið var tekið í notkun. Sam­bands­leysi margra skanna í strætis­vögnum varð til þess að stundum lásu þeir ekki far­miðann.

Samvkæmt upplýsingum frá strætó voru tilfellin allt frá örfáum til um tuttugu á dag á tímabili þar sem skannarnir lásu ekki kort fólks, sem áttu þó að vera góð og gild.

Jóhannes segir að því hafi því verið beint til bíl­stjóra að leyfa við­skipta­vinum að njóta vafans í þeim til­fellum.

„En það komu samt upp nokkuð mörg til­felli þar sem vagn­stjórinn hleypti við­komandi ekki um borð eða óskaði eftir að hann yfir­gæfi vagninn. Því miður. En þetta gerist. Þetta er stór hópur, það eru margir á ferðinni en sem betur fer eru þetta ekkert allt of mörg til­felli en kannski allt of mörg,“ segir Jóhannes.

Betrumbætt app í næstu viku

En það er ekki bara sam­bands­leysi og al­mennir gallar sem fara í taugarnar á fólki.

Að mati margra far­þega vantar nefni­lega ýmis­legt í appið. Þar er ekki hægt að leita að ferð eða fylgjast með strætó­ferðum í raun­tíma. Strætó lofar þó bót á þessu, jafn­vel strax eftir helgi.

„Leiðar­vísirinn kemur inn í appið og appið á að virka betur. Það hefur einnig verið svona smá vanda­mál með það,“ segir Jóhannes.

Jóhannes á því ekki von á öðru en að fólk geti farið að klappa eðli­lega með strætó á allra næstu dögum.

Fjallað var um Klapp þegar nýja greiðslukerfið var tekið upp í vetur í Kvöldfréttum Stöðvar 2. Hægt er að horfa á það hér að neðan:


Tengdar fréttir

Skiljanlegt að einhverjir séu ekki sáttir við breytinguna

Breytingar hafa verið tilkynntar á greiðsluskrá Strætó síðar í mánuðinum en bæði er þar um að ræða hækkanir á verði og lækkanir. Framkvæmdastjóri Strætó segist skilja að allir séu ekki á eitt sáttir við breytinguna en segir að breytta gjaldskráin bjóði upp á aukinn sveigjanleika. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×