Fótbolti

Lögreglan beitti táragasi á reiða stuðningsmenn Nígeríu sem réðust inn á völlinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn ganverska landsliðsins áttu fótum fjör að launa þegar súrir og svekktir stuðningsmenn Nígeríu réðust inn á völlinn í Abuja.
Leikmenn ganverska landsliðsins áttu fótum fjör að launa þegar súrir og svekktir stuðningsmenn Nígeríu réðust inn á völlinn í Abuja. ap/Sunday Alamba

Stuðningsmenn nígeríska fótboltalandsliðsins tóku því heldur illa þegar þeirra mönnum mistókst að komast á HM í fyrsta sinn síðan 2006.

Nígería gerði 1-1 jafntefli við Gana í seinni leik liðanna í umspili um sæti á HM í Katar í gær. Ganverjar fengu HM-sætið þökk sé marki á útivelli.

Áður en flautað var til leiksloka í Abuja í gær flykktust reiðir stuðningsmenn Nígeríu inn á völlinn. Þeir reyndu að eyðileggja varamannaskýli, fella mörkin um koll og köstuðu hlutum í leikmenn og stuðningsmenn Gana. Leikmenn Gana áttu erfitt með að komast af vellinum og til búningsklefa en það tókst að lokum. Ekki liggur fyrir hvort einhver hafi meiðst í átökunum.

Þegar lögreglan mætti á svæðið notaði hún kylfur til að kveða niður ólætin. Þegar það dugði ekki til notaði hún táragas.

Nígería hefur verið fastagestur á HM frá því liðið komst þangað í fyrsta sinn 1994. Vonbrigðin voru því mikil þegar ljóst var að Nígeríumenn yrðu ekki með á HM í Katar í lok þessa árs.

Gana, Marokkó, Túnis, Senegal og Kamerún verða fulltrúar Afríku á HM í Katar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.