Sport

Ekki gert ráð fyrir nýjum þjóðarleikvangi í nýrri fjármálaáætlun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Laugardalsvöllurinn var vígður 1959 og er barn síns tíma.
Laugardalsvöllurinn var vígður 1959 og er barn síns tíma. vísir/vilhelm

Ekki er gert ráð fyrir nýjum þjóðarleikvangi í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2023-27.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti nýja fjármálaáætlun í fjármálaráðuneytinu í morgun.

Bæði Laugardalsvöllurinn og Laugardalshöllin eru löngu úrelt mannvirki og standast ekki alþjóðlegar kröfur. Lengi hefur verið rætt um að þörfina á að reisa nýjan þjóðarleikvang en lítið sem ekkert þokast í þeim efnum.

Í fjármálaáætluninni sem var kynnt í dag segir að ýmis stærri fjárfestingarverkefni hafi verið í skoðun á undanförnum misserum. Meðal þess er bygging þjóðarleikvanga í íþróttum. Samkvæmt fjármálaáætluninni eru þessi áform á byrjunarstigi og endanlagt umfang framkvæmda liggur ekki fyrir.

Sökum þeirrar óvissu þykir ekki tímabært að gera ráð fyrir byggingu nýs þjóðarleikvangs í fjáráætluninni fyrir árin 2023-27.

Lofaði ekki fleiri nefndum

Í Pallborðinu á Vísi í desember kvaðst Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, bjartsýnn á að nýr þjóðarleikvangur risi innan tíðar. Allar forsendur væru fyrir hendi til að ráðast í byggingu hans.

„Ég get lofað því að það verði ekki fleiri nefndir sem að velta þessu upp. En það þarf auðvitað einhver að fara í samtal um þessi mál,“ sagði Ásmundur sem var í Pallborðinu ásamt Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni KSÍ, og Hannesi Jónssyni, formanni KKÍ.

Undanfarið hafa handbolta- og körfuboltalandslið Íslands spilað heimaleiki sína á Ásvöllum. Laugardalshöllin er enn ónothæf vegna vatnstjóns í desember 2020.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.