Innlent

Ólafur Ragnar hafður að háði og spotti á Face­book

Jakob Bjarnar skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti fær það óþvegið en mörgum finnst sem hann hafi birst í viðtali á Ríkissjónvarpinu nánast sem talsmaður Pútíns.
Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti fær það óþvegið en mörgum finnst sem hann hafi birst í viðtali á Ríkissjónvarpinu nánast sem talsmaður Pútíns. Getty Images/Sasha Mordovets

Fjölmargir hafa stigið fram á Facebook og fordæmt ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrverandi sitjandi forseta Íslands þau sem hann viðhafði um innrás Rússa í Úkraínu í viðtali við Egil Helgason á Ríkissjónvarpinu í gær. Þar talar fólk tæpitungulaust.

Ólafur Ragnar og Egill ræddu ástandið í Úkraínu og um Pútín sem Ólafur Ragnar hefur margoft hitt. Og hefur hingað til borið honum vel söguna. Ýmsir sjónvarpsáhorfendur telja hann nánast vera að afsaka gjörðir Pútíns í viðtalinu. Þá sagði Ólafur Ragnar að stækkun Atlantshafsbandalagsins til austurs hefði leitt til stærsta stríðs í Vestur-Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, NATO hefði í það minnsta ekki komið í veg fyrir það. 

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur segir í samtali við fréttastofu að með þessum ummælum sé verið að snúa hlutunum algjörlega á hvolf.

Baldur er síður en svo einn um að telja málflutning forsetans öfugsnúinn. Reyndar eru Ólafi Ragnari ekki vandaðar kveðjurnar á Facebook; hann er ýmist atyrtur eða hafður að háði og spotti. Og hér verður tæpt á nokkrum slíkum með það fyrir augum að átta sig á því hvað klukkan slær.

Kemur fram sem talsmaður Pútíns

Guðmundur Andri Thorsson varaþingmaður Samfylkingarinnar og rithöfundur ritaði pistil eftir að hafa horft á hið umdeilda viðtal.

„Ólafur Ragnar Grímsson kom fram í Silfrinu áðan sem talsmaður Pútíns, og talaði um innrás Rússa eins og nokkurs konar hryllilegar - en óhjákvæmlegar - náttúruhamfarir. Ólafur hefur alveg síðan í Alþýðubandalaginu talað eins og lönd Vestur-Evrópu séu ekki vinir og bandamenn Íslendinga heldur þvert á móti óvinir, og viljað að við litum annað eftir stuðningi.“

Guðmundur Andri segir að um hríð hafi hann talað eins og Ísland ætti að ganga í Asíu, og oft hafi hann og í gegnum tíðina mært Pútín.

„Hann leggur að jöfnu ákvarðanir fullvalda ríkja eins og Eystrasaltslandanna og Póllands um inngöngu í Nató og svo aftur innrás Rússa í fullvalda ríki. Hann talar nánast eins og þessi innrás Rússa sé viðbrögð við einhverjum ögrunum Nató. 

Guðmundur Andri telur Ólaf Ragnar koma fram sem talsmann Pútíns.Vísir/Vilhelm

Hann talar eins og svona innrás herveldis í fullvalda ríki sé bara eitthvað sem sé gert – jafnvel í nauðvörn. Þannig reynir hann að drepa á dreif raunverulegri sök á þessum atburðum. Hann vísar í höfunda kalda stríðsins með velþóknun, þar á meðal Kissinger sem vissi ekkert fyrirlitlegra en smáþjóðir með meiningar um tilverurétt – til dæmis Íslendinga, og stóð fyrir andstyggilegustu loftárásum síðustu aldar frá lokum heimsstyrjaldarinnar.“

Ýmsir leggja orð í belg á Facebook-síðu Guðmundar Andra um þetta efni, meðal annarra tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sem telur Ólaf Ragnar sjálfum sér samkvæman: „Greiningin hans á þessum málum er lituð af hans eigin hégóma og aðdáun á sólóleikurum eins og Pútín.“

Sögubullskýringar Ólafs Ragnars

Úr annarri átt kemur svo lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson að Ólafi Ragnari sem lætur forsetann heyra það.

Sveinn Andri telur Ólaf Ragnar einhvern mesta eftiráskýringabesserwisser sem sögur fari af.Vísir/Vilhelm

„Furðulegar bull-söguskýringar þarna á ferðinni hjá mesta eftirá besserwisser landsins.“

Þannig hefur Sveinn Andri sína ræðu. Og heldur svo áfram í morsstíl:

„Nýfrjáls ríki úr austurblokkinni sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum eða Varsjárbandalaginu hafa ástæðu til að óttast yfirgang og ofbeldi úr Kreml. Punktur.

Það er ástæða þess að þau hafa sótt um aðild að NATO sem er friðarbandalag. Punktur.

NATO hefur ekki verið að bjóða þessum ríkjum aðild. Punktur.

Samkvæmt ÓRG þurfa þessi fullvalda ríki að leita samþykkis Kremlverja fyrir því að sækja eftir öryggi frá NATO. Galið.“

Sveinn Andri segir fráleitt að ætlast til þess að bæði NATO og þessi sjálfstæðu ríki tipli á tánum í kringum Rússland í súrrandi meðvirkni; „eins og ættingjar áfengissjúklings í ölæði sem sér ekkert að ofdrykkju sinni og kennir öllum öðrum um það sem miður fer.“

Tragikómísk röksemdafærsla Ólafs Ragnars

Borgarfulltrúinn Pawel Bartoszek, sem er af pólsku ætterni og þekkir sérlega vel til austurblokkarinnar, telur röksemdafærslu forsetans sérkennilega:

„Ólafur Ragnar telur sig hafa tekið eftir því fyrir 5-6 árum að hugarfar Rússanna væri að taka breytingum.

Pawel veit ekki hvort hann á heldur að hlæja eða gráta. En segir sjálfum sér og vinum á Facebook brandara til að fá botn í málið.Vísir/Arnar

Sem sagt: Tveimur árum eftir að Rússland: innlimar Krímskagann með hybrid-hernaði og sýndaratkvæðagreiðslu, ræðst inn í austuhéruð Úkraínu og skýtur niður farþegaþotu þá fer Ólaf Ragnar að gruna að ekki sé allt með felldu.“

Pawel veit ekki hvort hann á að hlæja eða gráta og grípur til þess að segja Stierlitz-brandara sem rifjast upp fyrir honum af þessu tilefni:

„Stierlitz og Kathe eru í göngutúr. Skyndilega heyrist skothvellur, Kathe fellur á jörðina og blóð streymir úr höfði hennar.

Stierlitz fer strax að gruna að eitthvað sé að.“

Að nugga sér utan í morðóða einræðisherra

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að hann reki í það augu að vinir hans á Facebook séu margir hverjir hneykslaðir og jafnvel reiðir yfir þessu viðtali. Og hann geti vel skilið það.

„Þótt fátt hafi nú komið á óvart í þessu rausi. Mér er hins vegar þakklæti efst í huga eftir að hafa horft á viðtalið. Þakklæti fyrir að þessi maður sé ekki forsetinn okkar á þessum umróts- og örlagatímum, sem við lifum,“ segir Ólafur um nafna sinn og heldur áfram:

ólafur Stephensen er þakklátur fyrir að Ólafur Ragnar er ekki lengur sitjandi forseti íslenzka lýðveldisins.Vísir/Vilhelm

„Ég er þakklátur fyrir að eiga forseta sem á ríka mannúð og samhyggð og finnur ekki hjá sér neina þörf til að hrútskýra fyrir okkur að stríðsglæpirnir í Úkraínu séu eiginlega óhjákvæmileg afleiðing þess að hinn „hógværi og skynsami“ leiðtogi í Kreml hafi ekki getað búið við það að ríkjum, sem höfðu lengi verið undir járnhæl Rússa, væri hleypt inn í varnarbandalag vestrænna lýðræðisríkja.“

Ólafur segist þakklátur fyrir að nú sitji forseti sem leggur áherslu á samstöðu vestrænna ríkja gegn árás Pútíns á frið, lýðræði og mannréttindi.

„Á meðan við höfum Guðna, má Ólafur Ragnar mín vegna leika sér með ólígörkum og nudda sér utan í morðóða einræðisherra. Verði honum að góðu,“ segir Ólafur Stephensen.

Var hann virkilega að segja þetta?

Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar vissi ekki hvort hún ætti að trúa eigin eyrum þegar hún hlustaði á téð viðtal, hlustaði aftur því hún taldi að líklega hefði henni misheyrst. En nei.

„Aðspurður hvort innrás Rússa inn í fullvalda lýðræðisríki hefði komið honum á óvart játaði hann að aðferðin hefði komið á óvart en að við yrðum bara að vanda okkur hvernig við værum nú að koma fram við Rússana. Þetta væri ósigur fyrir viðhorf okkar vesturlanda gagnvart Rússum. Að við yrðum að breyta því, líklega bera meiri virðingu fyrir Pútín.“

Hér gerir þingmaðurinn kúnstpásu áður en lengra er haldið:

„Afsakið mig en ég skil alls ekki hvers vegna á að bera meiri virðingu fyrir leiðtoga sem svífst einskis þegar kemur að sviptingu almennings á grundvallarréttindum, morðum á pólitískum andstæðingum, lokun frjálsra fjölmiðla, lýðræðishömlum, spillingu og hótunum. 

Helga Vala ætlaði vart að trúa eigin eyrum þegar hún hlustaði á Ólaf Ragnar Grímsson í Silfrinu.Vísir/Vilhelm

Hvers vegna eiga Vesturlönd að beygja sig undir slíka stjórnarhætti og láta það gott heita þegar slíkur leiðtogi leiðir sitt ríki til innrásar í annað ríki, myrðir þar þúsundir almennra borgara og hrekur aðra á flótta?“ spyr Helga Vala og segist vona að þessar skoðanir fyrrverandi forseta lýðveldisins séu ekki til útflutnings.

Alexandra Briem borgarfulltrúi Pírata er á svipuðum slóðum þó hún hafi færri orð um furðu sína: „Var Ólafur Ragnar virkilega að segja í Silfrinu rétt áðan að það væri búið að taka stóra hluta af Rússlandi? Ég vissi að hann væri hrikalegur...en þetta er alveg út úr kortinu. Bókstaflega.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×