Lífið

Katy Perry kemur til Ís­lands í sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Katy Perry er sögð munu koma fram í Skarfabakka þó að ekki sé um eiginlega tónleika að ræða.
Katy Perry er sögð munu koma fram í Skarfabakka þó að ekki sé um eiginlega tónleika að ræða. EPA

Bandaríska söngkonan Kary Perry mun koma til Íslands næsta sumar í tilefni af því að hún verður svokölluð „guðmóðir“ skemmtiferðaskipsins Norwegian Prima sem mun fá formlega nafngift við Skarfabakka í Reykjavík í ágúst næstkomandi.

Faxaflóahafnir benda á þetta á Facebook-síðu sinni og kemur þar fram að þetta muni vekja mikla athygli bæði hér innanlands, sem og erlendis.

Í tilkynningu á vef Seatrade Cruise News segir að Perry, sem hefur um árabil starfað sem dómari í þáttunum American Idol, muni gefa skipinu nafn og „skemmta“.

Fram kemur að skipið muni bjóða upp á ferðir til Norður-Evrópu frá Southampton í Englandi, Amsterdam í Hollandi og Reykjavík frá 12. ágúst. Sömuleiðis verði skipinu siglt til Bermúda frá New York og verður einnig nýtt í Karíbahafssiglingar.

Katy Perry hefur verið ein vinsælasta söngkona heims um árabil með smelli á borð við I Kissed a Girl, Roar, California Gurls, Firework, E.T., Teenage Dream og Dark Horse.

Þá er hún með rúmlega 100 milljóna fylgjenda á Twitter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×