Innlent

Þriggja bíla á­­rekstur í fljúgandi hálku á Reykja­nes­braut

Árni Sæberg skrifar
Allt er stopp á Reykjanesbraut vestan Straumsvíkur.
Allt er stopp á Reykjanesbraut vestan Straumsvíkur. Vísir

Þrír bílar skullu saman á Reykjanesbraut rétt í þessu. Sjúkraflutningalið er enn á vettvangi og gera má ráð fyrir töfum á umferð.

Þetta staðfestir starfsmaður Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu en þrír sjúkrabílar voru sendir á slysstað og verða einhverjir fluttir á slysadeild til aðhlynningar. 

Ekki er þó talið að neinn hafi orðið fyrir alvarlegum meiðslum.

Slysið varð rétt vestur af Straumsvík, þar sem Reykjanesbrautin verður tvöföld.

Þá varð annar árekstur tveggja bíla nokkrum kílómetrum vestar.

Tveir árekstrar hafa orðið á Reykjanesbraut í kvöld.Aðsend

Að sögn sjónarvottar er umferð alveg stöðvuð í vesturátt nú um klukkan 19. Þá segir annar að lögregla hafi komið upp tveimur vegatálmum og stýri umferð á brautinni.

Umferð í átt að bænum er nokkuð þung en þó ekki alveg stopp líkt og í átt að Suðurnesjum.Vísir

Að sögn starfsmanns slökkviliðsins er fljúgandi hálka á svæðinu og mjög hvasst. Því er fólk hvatt til að fara varlega.

Á vefsíðu Vegagerðarinnar segir að flughált sé á Reykjanesbrautinni.

Mikið um árekstra í dag

Mjög mikið hefur verið um árekstra seinnipartinn í dag á höfuðborgarsvæðinu. Árekstur.is, fyrirtæki sem aðstoðar fólk sem lent hefur í árekstrum, hefur sinnt ríflega tuttugu árekstrum frá klukkan fjögur í dag.

Þá hafa yfir tíu bílar skemmst það mikið að dráttarbifreiðar hafa verið kallaðar til, að því er Kristján Ö. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Áreksturs.is, segir í skilaboðum til Vísis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.