Innlent

Bingó í Vina­bæ heyrir sögunni til eftir fjöru­tíu ára starf­semi

Árni Sæberg skrifar
Bingótölur hafa verið lesnar upp í Vinabær frá árinu 1990.
Bingótölur hafa verið lesnar upp í Vinabær frá árinu 1990. Facebook/Bingó í Vinabæ

Nú fer hver að verða síðastur að spila bingó í Vinabæ en aðeins þrjú bingókvöld eru eftir. Ástæðan er einföld; húsnæðið hefur verið selt undan starfseminni.

Þann 28. febrúar næstkomandi verður bingó spilað í Vinabæ í allra síðasta sinn þar sem gengið hefur verið frá kaupum á húsnæðinu. Fyrsta bingókvöldið var haldið 26. febrúar árið 1982, að vísu ekki í Vinabæ, og því er tæplega fjögurra áratuga starfsemi að ljúka. 

Bingóið hefur verið haldið í Vinabæ frá 1990, í 32 ár.

Þetta staðfestir Guðlaugur Sigmundsson, framkvæmdastjóri bingósins, í samtali við Vísi og segir óneitanlega um slæm tíðindi fyrir bingóunnendur hér á landi að ræða.

Ásókn ekki mikil undanfarið

Hann segir ásókn í bingó ekki hafa verið mikla undanfarin ár. „En svo náttúrulega hefur kóvidið ekki hjálpað til, við höfum ekki mátt hafa opið og ekki hægt að hafa opið nema bara stundum.“ 

Guðlaugur segir engin áform vera uppi um að finna starfseminni nýtt heimili, ekki eins og staðan er í dag allavega.

Síðustu bingókvöldin fara fram annað kvöld, 24. febrúar og svo loks 28. febrúar, ef veður leyfir.

„Ef þú varst ein/einn af þeim sem var alltaf á leiðinni og ætlaðir alltaf að prufa þá er tækifærið næstu kvöld,“ segir í tilkynningu á vefsíðu bingósins í Vinabæ. Húsið opnar klukkan 17:30 og leikur hefst klukkan 19:15.

Uppsett verð 290 milljónir

Að því er segir í frétt Viðskiptablaðsins var uppsett verð á Skipholti 33, Vinabæ, 290 milljónir króna þegar það var sett á sölu í fyrra. Endanlegt kaupverð liggur ekki fyrir.

Húsnæðið er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Vinabæjar, sem rekin er af Bindindissamtökunum I.O.G.T. á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×