Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út lokaráðgjöf um veiðar á yfirstandandi vertíð. Ráðgjöfin byggir á samteknum niðurstöðum á mælingum á stærð veiðistofns í haustleiðangri og leiðöngrum sem fóru fram frá 19. janúar til 14. febrúar.
Niðurstöður mælinga voru að skerða þyrfti upphaflega ráðgjöf um 34.600 tonn en útgerðarmenn ættu að geta sætt sig við það enda var óttast að skerða þyrfti kvótann um eitthundrað þúsund tonn.
Þá gætu enn betri fréttir borist útgerðarmönnum en allt stefnir í að norski loðnuflotinn nái ekki að klára sinn kvóta, enda má hann einungis stunda loðnuveiðar við Ísland í fimm daga til viðbótar. Því gæti kvóti fallið aukalega til hlut íslensku skipanna sem myndi vega vel á móti skerðingunni.
Skip Hafrannsóknarstofnunar r/s Bjarni Sæmundsson og r/s Árni Friðriksson tóku þátt í mælingum sem fóru að mestu fram dagana 19. til 31. janúar. Loðnustofninn var mældur í heildstæðri yfirferð frá Hornbanka að Hvalbak. Ekki var unnt að mæla vestar vegna íss.
10. til 14. febrúar náði r/s Árni Friðriksson mælingu frá Grænlandssundi austur yfir Kolbeinseyjarhrygg.