Gular viðvaranir hafa nú verið gefnar út fyrir höfuðborgarsvæðioð, Suðurland, Faxaflóa og Suðausturland en fyrstu viðvaranir byrja að taka gildi skömmu eftir hádegi á morgun.
„Vaxandi austanátt og víða skafrenningur sunnan- og vestanlands á morgun, en gengur í austan storm eða rok syðst á landinu með snjókomu. Búast má við erfiðum akstursskilyrðum,“ segir í athugasemdum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Gilda fram á sunnudag
Á Suðurlandi hafa verið gefnar út tvær viðvaranir, sú fyrsta tekur gildi klukkan 13 á morgun og verður í gildi til 20 þar sem gert er ráð fyrir austan hvassviðri eða stormi.
Þá tekur önnur viðvörun gildi klukkan 20 og verður í gildi til sunnudagsmorguns þar sem gera má ráð fyrir hríð, 18 til 28 metrar á sekúndu með snjókomu og skafrenningi.
Á höfuðborgarsvæðinu tekur gul viðvörun gildi klukkan 16 og verður í gildi fram að hádegi á sunnudag en gera má ráð fyrir hvassri austanátt og skafrenningi. Allt að 18 til 25 metrar á sekúndu syðst með snjókomu.
Þá taka sömuleiðis viðvaranir við Faxaflóa gildi klukkan 16 þar sem gera má ráð fyrir hvassviðri eða stormi og skafrenningi.
Klukkan 20 annað kvöld taka síðan gildi viðvaranir á Suðausturlandi og verða þær viðvaranir í gildi fram að sunnudagskvöldi. Gert er ráð fyrir norðaustan roki, skafrenningi og snjókomu með köflum.
