Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, segist vera mjög peppaður fyrir morgundeginum. Lyftan hafi verið í keyrslu í allan dag, verði í gangi frá 13-16 á morgun og svo frá 10-16 á sunnudaginn. Formleg vígluathöfn verður þó haldin síðar.
Brynjar Helgi er sjálfur fjarri góðu gamni, heima með Covid-19. Hann segir mikið álag á starfsfólki í fjallinu enda brjálað að gera. Verið að troða nýjar leiðir eftir alla ofankomuna, standa vaktina í lyftunni og svo er það auðvitað skíðaleigan, veitingasalan og svo fram vegis.
Hiti á Akueyri er við frostmark og stillt. Fínustu aðstæður til að renna sér eftir mikla ofankomu undanfarna daga. Á morgun er spáð köldu en björtu hægviðri og verður lyftan því gangsett við kjöraðstæður .
Vegna aðstæðna og mikils bratta svo hátt í fjallinu, verður lyftan eingöngu notuð þegar skyggni er gott og snjóflóðahætta í lágmarki.
„Það verður mikil gleði upp frá á morgun,“ segir Brynjar Helgi. Hann verður að bíða til mánudags eftir að mæta sjálfur á svæðið.
„Það verður góður dagur á skrifstofunni á mánudaginn.“