Innlent

Stærsta renni­braut í heimi og öldu­laug gætu orðið að veru­leika í Laugar­dals­laug

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar.
Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar. sigurjón ólason

Stærsta rennibraut í heimi, kaffihús og risa stökkpallur gætu verið meðal nýjunga í nýrri Laugardalslaug. Nú stendur yfir hugmyndasöfnun um endurgerð Laugardalslaugar og segir forstöðumaðurinn að enginn hugmynd sé of stór.

Framundan er endurgerð Laugardalslaugar sem þarfnast mikils viðhalds og að því tilefni stendur nú yfir hugmyndasöfnun um framtíð laugarinnar.

Skoða allar hugmyndir

„Fólki er frjálst að koma með sína hugmynd. Bestu hugmyndina að sjálfsögðu. Það verður kannski ekki keppni um bestu hugmyndina en við munum nýta allar hugmyndir,“ sagði Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar.

Almenningur er hvattur til þess að taka þátt og er þá um að gera að leyfa sér að dreyma stórt.

„Engin hugmynd er of stór af því að ég veit að borgin ætlar sér stórt. Hún er búin að bíða lengi eftir að fara í endurgerð á lauginni og hún er löngu komin á tíma á viðgerð og það þarf að gera mikið við hana.“

Hugmyndakassinn í afgreiðslu laugarinnar.sigurjón ólason

Hann segir að borgin sé búin að áætla tvo og hálfan til þrjá milljarða í verkefnið en að viðbúið sé að sú tala muni hækka.

500 hugmyndir komnar á blað

Nú þegar hafa borist fimm hundruð hugmyndir og eru þær meðal annars: Stökkpallar í átta til tíu metra hæð. Aðstaða til djúpköfunar og risa öldulaug.

„Og svo eru margar út frá pælingum um stórar rennibrautir. Fá alvöru rennibraut fyrir krakka á öllum aldri því maður á aldrei að hætta að leika sér.“

Hægt er að senda hugmyndir fram til sjötta mars á Betri Reykjavík.is og í hugmyndabox í afgreiðslu Laugardalslaugar. En hvenær fáum við að sjá nýja Laugardalslaug?

„Þegar ég byrjaði að vinna hér fyrir ári siðan þá var talað um 2025-26 en eigum við ekki bara að segja árið 2028, svona skotið út í loftið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×