Innlent

„Veikindarétturinn verður ekki brotinn“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vísir/Sigurjón

Veikindarétturinn verður ekki brotinn. Þetta segir formaður Félags hjúkrunarfræðinga um þau ummæli að mögulega þurfi að kalla covid smitað heilbrigðisstarfsfólk til vinnu vegna mönnunarvanda. Félagið mun bregðast við því ef stofnanir brjóti á veikindarétti hjúkrunarfræðinga.

Í fyrradag greindum við frá því að forsvarsmenn Landspítali skoði nú hvort þeir neyðist til að fá smitað starfsfólk til starfa í þeim tilgangi að leysa mönnunarvanda og geta haldið úti þjónustu.

Formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðingar líst afar illa á þetta.

„Við að sjálfsögðu mætum ekki veik til vinnu til að sinna fólki sem liggur inn á heilbrigðisstofnun og má ekki við því að smitast. Mér finnst það gefa augaleið,“ sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félagsins.

Gegn siðareglum hjúkrunarfræðinga

Þetta fari gegn siðareglum hjúkrunarfræðinga og brjóti á veikindarétti sem tryggður er í kjarasamningum.

„Það má heldur ekki gleyma því að veikindarétturinn er það sterkasta sem við höfum og ef að það á að fara að brjóta á veikindarétti sem tryggður er með kjarasamningi þá er eitthvað mikið að og við þurfum að skoða það sérstaklega.“

Félagið muni bregðast við því ef að veikindaréttur hjúkrunarfræðinga verður brotinn.

Algjört neyðarúrræði

Sóttvarnalæknir segir í samtali við fréttastofu að nú sé verið að útbúa leiðbeiningar fyrir forsvarsmenn þá vinnustaða sem þurfa að láta smitaða starfsmann mæta til vinnu, en beiðni um slíkt þarf að fara í gegn um sóttvarnalækni. 

Þetta sé algjört neyðarúrræði enda áhætta fólgin í því að fá smitaðan starfsmann inn á heilbrigðisstofnun. Hann minnir þó á að það sé líka áhætta að ekki séu til staðar starfsmenn til þess að sinna sjúkum.

„Núna í enn eitt skiptið bítum við úr nálinni með það hér hafa ekki verið framkvæmdar tilhlýðilegar aðgerðir til þess að fjölga hjúkrunarfræðingum í starfi og halda þeim í starfi sem hafa flosnað upp úr því og þetta er bara enn ein birtingarmyndin af því.“

„Veikindarétturinn verður ekki brotinn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×