Lífið

Kynnar á Óskars­verð­launa­há­tíðinni eftir þriggja ára hlé

Atli Ísleifsson skrifar
Regina Hall, Amy Schumer og Wanda Sykes verða kynnarnir á Óskarsverðlaunahátíðinni í ár.
Regina Hall, Amy Schumer og Wanda Sykes verða kynnarnir á Óskarsverðlaunahátíðinni í ár.

Eftir þrjár Óskarsverðlaunahátíðir í röð án kynnis verður nú breyting á. Þrjár konur – þær Regina Hall, Amy Schumer og Wanda Sykes – munu sameiginlega taka að sér hlutverkið á 94. Óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fer 27. mars næstkomandi.

Variety segir frá þessu, en þær munu hver um sig sjá um hlutverk kynnis í einn klukkutíma, en útsendingin stendur í samtals þrjá tíma.

Reiknað er með að formlega verði greint frá valinu á kynnum hátíðarinnar í morgunþættinum Good Morning America síðar í dag.

Framleiðslufyrirtæki Will Packer, sem stendur meðal annars að baki myndinni Girls Trip, framleiðir Óskarsverðlaunahátíðina í ár. Leikkonan Regina Hall birtist meðal annars í þeirri mynd ásamt Think Like a Man, Little og Scary Movie.

Amy Schumer er einn vinsælasti grínisti Bandaríkjanna og hefur sömuleiðis leikið í myndum á borð við Trainwreck og fjölda uppistandssýninga.

Wanda Sykes er líkt og Schumer vinsæll uppistandari og handritshöfundur. Þá hefur hún leikið í þáttum eins og The New Adventures of Old Christine, Curb Your Enthusiasm og Black-ish.

Áhorf á Óskarsverðlaunahátíðina hefur mjög dregist saman á síðustu árum og vonast framleiðendur til að hægt verði snúa þróuninni við.

35 ár eru nú liðin frá því að kynnarnir á Óskarsverðlaunahátíðinni voru þrír talsins og verður þetta í fyrsta skipti sem þrjár konur verða kynnar.


Tengdar fréttir

Beyoncé tilnefnd til Óskarsins - Allar tilnefningarnar

Tilnefningar til Óskarsins voru gefnar út í dag og sáu þau Tracee Ellis Ross og Leslie Jordan um að kynna þær. Hátíðin mun fara fram þann 27. mars og var spennan fyrir tilnefningunum gríðarlega sérstaklega þar sem Íslendingar áttu möguleika á tilnefningu fyrir Dýrið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×