Innlent

Sigló goðsögnin Nanna Franklíns látin 105 ára gömul

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nanna Franklíns var uppáhaldsfrænkan segir systur sonur hennar í færslu á Facebook þar sem greint er frá andlátinu.
Nanna Franklíns var uppáhaldsfrænkan segir systur sonur hennar í færslu á Facebook þar sem greint er frá andlátinu. Guðmundur Jón Albertsson

Nanna Franklínsdóttir er látin 105 ára að aldri. Nanna hafði undanfarna daga borið titilinn elsti Íslendingurinn.

Hallfríður Nanna Franklínsdóttir, jafnan nefnd Nanna Franklíns, fæddist þann 12. maí 1916 að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu. Hún var ein þrettán systkina sem mörg hver náðu afar háum aldri.

Hún var ein þriggja systra sem náðu yfir hundrað ára aldri. Anna Margrét lést 105 ára árið 2015 og Margrét Franklínsdóttir systir þeirra varð hundrað ára þann 10. janúar síðastliðinn.

Guðmundur Jón Albertsson, systursonur Nönnu, greinir frá andlátinu á Facebook. Þar kemur fram að Nanna, móðursystir og uppáhaldsfrænka Guðmundar og bræðra hans þriggja, hafi látist á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði í morgun.

Langlífur systkinahópur

Facebook-síðan Langlífi hefur reglulega fjallað um langlífa systkinahóp Nönnu. Foreldrar þeirra voru þau Franklín Þórðarson frá Stóra-Fjarðarhorni í Strandasýslu og Andrea Jónsdóttir frá Miðhúsum í Kollafirði. Andrea bjó lengst af á Siglufirði og varð 97 ára.

Níu af systkinunum þrettán náðu yfir 90 ára aldri. Systurnar Nanna og Margrét hafa dvalið saman undanfarin ár á sjúkrahúsinu á Siglufirði.

Trölli.is á Siglufirði hafði eftir Sigurði Ægissyni, sóknarpresti á Siglufirði, á 105 ára afmæli Nönnu í fyrra að Nanna hefði ætíð verið létt í lund, fylgst grannt með bæjarlífi og þjóðmálum.  

„Hún er alltaf sjálfri sér lík, hún Nanna, tekur sjálfa sig ekki of hátíðlega, kemur til dyranna eins og hún er klædd, er skörp í orðaskiptum, hnyttin, skýr í huga, heldur sínu striki og er bara hún sjálf.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×