Innlent

Segir skil­yrðis­lausa ríkis­styrki á meðal stærstu hag­stjórnar­mis­takanna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Drífa Snædal, segir að Alþýðusamband Íslands hafi frá upphafi faraldursins varað við því að fyrirtæki geti misnotað ríkisstyrki ef þeir væru skilyrðislausir. Tilgangurinn með styrkjunum hafi ekki verið að ríkissjóður myndi greiða eigendum fyrirtækja arð.
Drífa Snædal, segir að Alþýðusamband Íslands hafi frá upphafi faraldursins varað við því að fyrirtæki geti misnotað ríkisstyrki ef þeir væru skilyrðislausir. Tilgangurinn með styrkjunum hafi ekki verið að ríkissjóður myndi greiða eigendum fyrirtækja arð.

Á meðal stærstu pólitísku hagstjórnarmistaka sem gerð voru í kórónuveirufaraldrinum var að láta hjá líða að setja skilyrði um að fyrirtæki geti ekki greitt út arð ef þau þiggja lokunar- og viðspyrnustyrki. Þetta segir Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands.

Á dögunum hafa fréttir verið sagðar af því að því að fyrirtækið Háspenna, sem er rekstraraðili spilakassa á vegum Happdrættis Háskóla Íslands, hafi fengið 17 milljónir í lokunarstyrk árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins en greitt eigendum sínum út 12 milljónir í arð það sama ár.

Ögmundur Jónason fyrrverandi ráðherra vakti á dögunum athygli á arðgreiðslum fyrirtækisins en hann hefur undanfarin ár verið óþreytandi við að gagnrýna fyrirkomulag spilakassa hér á landi.

Alþýðusamband Íslands hefur frá upphafi faraldursins varað stjórnvöld við því að greiða út styrki til fyrirtækja vegna faraldursins án nokkurra skilyrða.

„Til að koma í veg fyrir að almannafé, sem lak út úr ríkiskassanum stríðum straumi til fyrirtækja, væri ekki misnotað og að það færi á þá staði sem á þyrfti að halda og ekki í vasa fjármagnseigenda en það er alveg ljóst að það var tekin pólitísk ákvörðun að veita skilyrðislausa styrki, í einhverjum tilvikum, til fyrirtækja. Við sjáum afleiðingar af því núna. Ríkisstuðningur er að fara í arðgreiðslur en það var náttúrulega aldrei tilgangurinn. Við förum að sjálfsögðu fram á það að Ríkisendurskoðun fari í saumana á þessu.“

Drífa bendir á að sameiginlegir sjóðir standi undir velferð í landinu. Þegar verið sé að bruðla með þá sjóði komi það óhjákvæmilega niður á velferð allra.

„Þetta er aðför að velferð og lífsgæðum fólks þegar farið er illa með opinbert fé“

Dæmi á borð við arðgreiðslur Háspennu eigi ekki að koma stjórnvöldum á óvart og séu fullkomlega fyrirsjáanleg.

„Þarna hefur verið tekin pólitísk ákvörðun með opin augun um að skilyrða ekki ákveðna ríkisstyrki. Það mátti aldrei setja nein bönd á fjármagnið, aldrei nein bönd á fyrirtæki og almenningur mun súpa seyðið af því. Þetta eru ein af stóru pólitísku hagstjórnarmistökunum sem gerð voru í þessu ástandi“


Tengdar fréttir

Reyna að koma til móts við á­hyggjur rekstrar­­aðila

Ríkisstjórnin hyggst framlengja úrræði á borð við lokunargreiðslur og viðspyrnustyrki út árið en núgildandi lög um slíka styrki renna út á næstu mánuðum. Þá stendur til að framlengja gjaldfresti á stuðningslánum sem er ætlað að styðja við smærri fyrirtæki sem glíma við erfiðleika vegna faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×