Innlent

Kórinn hætti störfum þegar kórstjórinn sagði upp vegna eineltis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fréttablaðið hefur eftir einum stjórnarmanna kórsins að kórfélagar hafi í raun orðið vitni að því hvernig Lára brotnaði hægt og rólega niður vegna framkomunnar á vinnustaðnum.
Fréttablaðið hefur eftir einum stjórnarmanna kórsins að kórfélagar hafi í raun orðið vitni að því hvernig Lára brotnaði hægt og rólega niður vegna framkomunnar á vinnustaðnum. Vísir/Vilhelm

Þjóðkirkjan hefur nú til skoðunar að minnsta kosti sjö mál er varða ásakanir á hendur séra Gunnari Sigurjónssyni, sóknarpresti í Hjallakirkju, um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti.

Frá þessu greinir Fréttablaðið.

Eitt málanna varðar framkomu Gunnars í garð Láru Bryndísar Eggertsdóttur, organista og kórstjóra, sem sagði upp störfum vegna málsins í apríl í fyrra.

Kór Hjallakirkju, sem hefur verið starfræktur í 34 ár, lagði niður störf í kjölfar uppsagnar Láru Bryndísar en kórfélagar standa þétt við bakið á kórstjóranum og hafa sumir fylgt henni annað.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins stóð sóknarnefnd kirkjunnar með Láru en einn stjórnarmanna í Hjallakirkjukórnum segir hana ekki hafa fengið stuðning frá öðrum prestum í prestakallinu. 

Í ályktun kórfélaga, sem þeir sendu frá sér í mars í fyrra og Fréttablaðið hefur undir höndum, segir meðal annars að þeim þyki framkoma ákveðinna starfsmanna kirkjunnar í garð Láru Bryndísar ámælisverð.

„Við erum miður okkar yfir þeim neikvæðu áhrifum sem þessi átök innan kirkjunnar hafa haft og munu hafa á annars langt og farsælt kórstarf við Hjallakirkju. Við sitjum ekki þegjandi hjá þegar kórstýran okkar, sem er fagmanneskja fram í fingurgóma og góður félagi, hrekst frá vinnu vegna þess sem okkur sýnist jaðra við að vera einelti á vinnustaðnum,“ sagði í ályktuninni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×