Innlent

Byssumaðurinn er góðkunningi lögreglunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aðgerðir lögreglanna í morgun voru umfangsmiklar. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Aðgerðir lögreglanna í morgun voru umfangsmiklar. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Karlmaðurinn sem er í haldi lögreglu grunaður um að hafa skotið á karl og konu í Grafarholtinu í nótt hefur þrátt fyrir ungan aldur endurtekið komið við sögu lögreglu og hlotið dóma fyrir vopnaburð án tilskilinna leyfa.

Karlinn og konan slösuðust bæði og voru flutt á slysadeild með sár eftir skotin. Þau eru ekki í lífshættu samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun.

Sá grunaði er samkvæmt heimildum fréttastofu á 23. aldursári og hefur varið stórum hluta fullorðinsáranna á bak við lás og slá. Hann hefur greint frá því opinberlega að hafa ungur farið í neyslu.

Hann var aðeins á táningsaldri þegar hann hlaut dóm fyrir tilraun til manndráps auk fleiri brota. Vegna þess brots var hann á skilorði þegar hann hlaut nokkurra ára fangelsisdóm árið 2018 fyrir brot á lögum um vopn, fíkniefni, umferðarlagabrot auk þess sem hann var sakfelldur fyrir ofbeldishótanir.

Lögreglan tók fram í tilkynningu sinni fyrir hádegi að hún teldi almenningi ekki hætta búin vegna málsins. Um sé að ræða einstakt mál.

Von er á frekari upplýsingum frá lögreglu í dag vegna málsins. Telja má líklegt að lögreglan fari fram á gæsluvarðhald yfir manninum sem gera þarf innan sólarhrings frá handtöku.


Tengdar fréttir

Karlmaður sem skaut á fólk í Grafarholti í haldi lögreglu

Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi lögreglu eftir að tilkynnt var um skotárás í Grafarholti á fjórða tímanum í nótt. Skotið var á karl og konu sem stödd voru utandyra í hverfinu og voru þau flutt á slysadeild þar sem gert var að sárum þeirra. Þau eru ekki í lífshættu. 

Lögregluaðgerð við Miklubraut

Töluverður viðbúnaður lögreglu var við hús við Miklubraut í Reykjavík gegn Klambratúni á tíunda tímanum í dag. Von er á tilkynningu frá lögreglu vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×