Viðtalið við Davidson birtist í gær í sérstökum vefþætti tímaritsins People. Viðtalið var í heldur óhefðbundnu sniði en Davidson var staddur í svefnherbergi sínu og spjallaði við blaðakonu People í gegnum fjarskiptabúnað.
Í svefnherberginu mátti meðal annars sjá bangsa á rúminu hans og kerti með mynd af sjálfri Kim Kardashian. Hann afsakaði þó ástandið á herberginu og sagðist vera að standa í flutningum.
Er ekki á samfélagsmiðlum
Í viðtalinu var hann spurður hvaða áhrif þessi skyndilega frægð hefði haft á líf hans.
„Ég er ekki á Instagram eða Twitter, þannig ég eyði mestum tíma í að fara inn í og út úr bíl og koma mér í tökur. Ef ég er í fríi þá er ég oftast með vinum mínum eða kærustunni minni innandyra,“ segir Davidson og staðfesti með þessu að hann og Kardashian væru nú formlega par.
Sambandið hefur verið umtalað síðan þau fóru að sjást saman opinberlega síðasta haust. Sumir vildu þó meina að sambandið væri sett upp fyrir athyglina og jafnvel að þetta væri bara ein stór auglýsing fyrir SKIMS, fatamerki Kardashian.
Sjá einnig: Yeezy-klædd Kim Kardashian leiðir nýja kærastann
„Þetta hefur ekki mikil áhrif á lífið mitt. Stundum gerist það að fólk öskrar eitthvað á mig og það er kannski erfitt fyrir mig að ætla að skjótast á Dunkin Donuts. En fyrir utan það, þá er þetta ekkert hræðilegt. Þetta gæti verið mun verra.“
Heldur Valentínusardaginn hátíðlegan í fyrsta sinn
Þegar blaðakonan minnir Davidson á það að Valentínusardagurinn sé á næsta leyti, segist hann aldrei hafa haldið upp á þann dag áður.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég er farinn að huga að einhverjum áformum fyrir Valentínusardaginn,“ segir Davidson.
Honum er því greinilega alvara með sambandi sínu við Kardashian, því þetta er alls ekki hans fyrsta samband. Hann var meðal annars trúlofaður söngkonunni Ariönu Grande.