Innlent

Veður­skil­yrði slæm og flug­vélin verður ekki sótt í dag

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Flugvélin fannst með kafbáti í Þingvallavatni í gærkvöldi.
Flugvélin fannst með kafbáti í Þingvallavatni í gærkvöldi. vísir/vilhelm

Flug­vélin sem fannst á botni Þing­valla­vatns í gær­kvöldi verður ekki sótt í dag. Gríðar­lega flókið verk­efni bíður við­bragðs­aðila; vélin er á 50 metra dýpi á svæði sem er hættu­legt fyrir kafara að komast að og veður­skil­yrði slæm næstu daga.

„Það er ljóst að það er tíma­frekt og á­kaf­lega flókið verk­efni fram undan,“ segir Oddur Árna­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Suður­landi.

Flugvélin fannst klukkan rúm­lega tíu í gær­kvöldi rétt eftir að flestir við­bragðs­aðilar höfðu lokið störfum og frestað leitinni til morguns. Sér­að­gerða­sveit á­kvað að halda að­eins á­fram að leita með kaf­bátnum og fundu vélina síðan á 50 metra dýpi í sunnan­verðum hluta Þing­valla­vatns.

Oddur segir veður­skil­yrði afar slæm til að­gerða á svæðinu.

„Þau eru alls ekki góð og alveg ljóst að menn byrja ekki á öðru í dag en undir­búningi.“

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Rannsóknin verði ekki unnin í fjölmiðlum

Leit hófst af flugvélinni um hádegisbil á fimmtudag en um borð í henni voru flugmaður auk þriggja ferðamanna í skipulögðu útsýnisflugi.

Ekki liggur fyrir hvað fór þar úrskeiðis og vill Oddur ekkert segja um möguleg tildrög slyssins að svo stöddu.

„Við gefum ekkert upp annað en að rann­sóknin er bara í gangi og hún verður ekki unnin í fjöl­miðlum.“

Lög­reglan á Suður­landi hefur al­farið tekið við málinu af Land­helgis­gæslunni eftir að vélin fannst. Allir við­bragðs­aðilar sem komið hafa að málinu funda í há­deginu um næstu skref og hvernig hægt verði að sækja vélina.

„Lög­reglu­menn, starfs­menn gæslunnar og þeir sem að þessu koma byrjuðu að fara yfir gögnin í gær og eru að vinna úr þeim og leggja þau fyrir okkur í há­deginu. Þá verða á­kvarðanir um næstu skref tekin,“ segir Oddur.

Þau verða kynnt eftir fundinn.

„Það er full á­stæða til að þakka öllum sem að þessu komu; björgunar­sveitar­mönnum, sjálf­boða­liðum á flug­vélum og öllum sem lögðu hönd á plóginn. Það var hópur af fólki sem lagði björgunar­liðum til hús­næði og það var bara ein­stakt að verða vitni að svona sam­heldni í sam­fé­laginu,“ segir Oddur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.