Innlent

Flugvélin sem leitað var að fannst í Þingvallavatni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leitaraðilar að störfum við Þingvallavatn síðdegis í dag.
Leitaraðilar að störfum við Þingvallavatn síðdegis í dag. Vísir/vilhelm

Flugvélin sem saknað hefur verið frá því um hádegisbil á fimmtudag er fundin. Vélin fannst með fjarstýrðum kafbát fyrirtækisins Teledyne Gavia í Ölfusvatnsvík, í sunnanverðu Þingvallavatni, á ellefta tímanum í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Rúmlega þúsund viðbragðsaðilar hafa tekið þátt í leitinni, þar á meðal á níunda hundrað björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, þyrlusveit landhelgisgæslunnar, lögregla, séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sérsveit ríkislögreglustjóra, starfsmenn Isavia, einkaaðilar auk fjölmargra annarra. 

Landhelgisgæslan segist í tilkynningu vilja þakka öllum þeim sem komið hafa að þessari umfangsmiklu leit fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf við krefjandi aðstæður. Rannsókn málsins og næstu skref eru í höndum lögreglunnar á Suðurlandi.

Frá leitaraðgerðum við Þingvallavatn um kvöldmatarleytið í dag.Vísir/vilhelm

Viðbragðsaðilar sem unnið hafa unnið að leitinni eru komnir í hvíld og í hádeginu er fyrirhugaður stöðufundur þar sem farið verður yfir næstu skref. Lögreglan á Suðurlandi getur veitt frekari upplýsingar að þeim fundi loknum, segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar sem hefur haft leitina á forræði sínu.

Voru í útsýnisflugi

Fram hefur komið að flugvélin sem um ræðir var af gerðinni Cessna 172N með skráningarnúmerinu TF-ABB. Haraldur Diego, reynslumikill flugmaður og eigandi vélarinnar, var í ferð með þrjá erlenda ferðamenn í útsýnisflugi. 

Flugvélin sem fór í loftið um hálf ellefuleytið á fimmtudagsmorgni. Engin boð bárust frá neyðarsendi og var hennar leitað í hálfan annan sólarhring áður en hún fannst í Þingvallavatni.

Haraldur er tæplega fimmtugur og hefur starfað sem flugmaður og ljósmyndari um árabil. Hann nýtur mikilla vinsælda í flugi yfir íslenskar náttúruperlur en hann rekur fyrirtækið Volcano Air Iceland. Haraldur er formaður AOPA, hagsmunafélags flugmanna og flugvélaeigenda á Íslandi, og ritstjóri Flugsins, tímarits um flugmál.

Leitaraðgerðir hófust um tvöleytið á fimmtudag eftir að ekkert hafði spurst til vélarinnar sem fór í loftið á Reykjavíkurflugvelli klukkan hálf tólf sama dag. Fljótlega beindist leitin að svæðinu sunnan Þingvallavatns og vestan Úlfljótsvatns. Í dag fannst olíubrák í Þingvallavatni og hófst leit í sunnanverðu vatninu þar sem fjarstýrður kafbátur var meðal annars notaður við leitina. 

Vísir hefur fylgst með gangi mála við leitina frá því hún hófst eftir hádegi á fimmtudaginn í vaktinni hér að neðan.


Tengdar fréttir

Leit frestað til tíu í fyrramálið

Leit stendur enn yfir að flugvél með fjóra innanborðs sem ekkert hefur spurst til í rúman sólarhring. Flugvélin fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálf ellefu í gær en um var að ræða útsýnisflug íslensks flugmanns með þrjá erlenda ferðamenn.
Fleiri fréttir

Sjá meira
×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.