Sigríður Lillý hefur starfað sem forstjóri TR í rúm 14 ár að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
Hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samráði við stjórn TR, farið þess á leit við Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastýru á skrifstofu forstjóra og staðgengil forstjóra, að hún gegni starfinu þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn.
Sigrún hefur starfað hjá TR frá því í apríl 2019 en áður var hún kennslustjóri Háskólans á Bifröst í fjögur ár. Hún hefur víðtæka reynslu og þekkingu af störfum á vettvangi velferðarmála en sem dæmi var hún fulltrúi í nefnd sem vann fyrstu áætlun stjórnvalda gegn ofbeldi á heimilum og kynbundnu ofbeldi, sem var birt árið 2006, og var á árunum 1991-1995 varamaður og síðar aðalfulltrúi í tryggingaráði. Sigrún hefur meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
Starf forstjóra Tryggingastofnunar verður auglýst laust til umsóknar á næstu dögum.