Innlent

Runólfur Pálsson nýr forstjóri Landspítala

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Runólfur Pálsson.
Runólfur Pálsson. Vísir/Sigurjón

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Runólf Pálsson í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára. 

Ákvörðun ráðherra er tekin að undangengnu mati lögskipaðrar hæfnisnefndar sem mat Runólf meðal þeirra umsækjenda sem hæfastir þóttu til að gegna embættinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Segja framtíðarsýn hans skýra

„Runólfur Pálsson er læknir að mennt með sérfræðiréttindi í lyflækningum og nýrnalækningum. Runólfur hefur afburðarþekkingu á öllum þáttum faglegrar starfsemi spítalans en hefur einnig yfirgripsmikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu hér á landi í víðu samhengi, samspili stofnana og mismunandi þjónustustiga. Hann hefur verið leiðandi og farsæll í klínískum störfum og sem stjórnandi. Runólfur hefur unnið að innleiðingu margvíslegra umbóta og nýjunga og framtíðarsýn hans fyrir Landspítala er skýr,“ segir í tilkynningu.

Valinn úr fjórtán manna hópi

Runólfur tekur við embættinu af settum forstjóra Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, en hún gengdi störfum forstjóra eftir að Páll lét af störfum. Fjórtán sóttu um embættið.

Í tilkynningu kemur fram að Runólfur hafi mikla reynslu og þekkingu á kennslu- og þjálfunarhlutverki spítalans. Hann var kennslustjóri lyflækningasviðs og staðgengill framhaldsmenntunarstjóra lyflækningasviðs Landspítala auk þess að hafa komið að fjölda nefnda og annarra stefnumótandi starfa í tengslum við kennslu- og þjálfunarhlutverk spítalans.

Runólfur er prófessor við Háskóla Íslands og varaforseti læknadeildar Háskóla Íslands. Þá hefur hann gegnt leiðandi hlutverki á alþjóðavettvangi á sviði lyflæknisfræði. Hann hefur verið afkastamikill í vísindastarfi og hefur mikinn metnað og skýra sýn á akademískt hlutverk spítalans og umbætur á því sviði sem og mikilvægi tengsla spítalans við háskólastofnanir.

Runólfur tekur við embætti forstjóra 1. mars næstkomandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.