Innlent

Ætlar ekki að vera með „VIP-leið fyrir sérhóp“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jón Gunnarsson segir að með breytingunum hafi verið komið í veg fyrir að sumir kæmust fram fyrir umsóknarröðina um ríkisborgararétt.
Jón Gunnarsson segir að með breytingunum hafi verið komið í veg fyrir að sumir kæmust fram fyrir umsóknarröðina um ríkisborgararétt. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra, segir þingmenn stjórnarandstöðunnar misskilja breytingar sem hann gerði á reglum um afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt. Hann hafi með breytingunum komið í veg fyrir að sumir nytu hraðari afgreiðslu umsóknar um ríkisborgararétt en aðrir.

„Það er einhver misskilningur í gangi þarna greinilega. Það er verið að vinna með afgreiðslur umsókna um ríkisborgararétt og það er bara verið að vinna þær samkvæmt lögum,“ sagði Jón í Bítinu á Bylgjunni í morgun. 

Þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku margir málið upp undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í gær og gagnrýndu innanríkisráðherra harðlega fyrir breytingarnar. Margir þeirra sögðu hann láta persónulegar skoðanir sínar ráða för en ekki þau lög sem í gildi væru um aðkomu Alþingis að tilteknum umsóknum. 

Afgreiðsla umsókna um ríkisborgarétt hefur skipst milli Alþingis og Útlendingastofnunar en umsækjendur hafa rétt á að sækja um það að mál þeirra verði tekið fyrir af Alþingi. Með breytingum Jóns er það nú þannig að umsóknir sem beint er að Alþingi njóta ekki forgangs umfram almennar umsóknir sem Útlendingastofnun sjálf tekur afstöðu til. 

Jón skrifaði í skoðanagrein sem birtist á Vísi í gær að með þessu hefði afgreiðslutími umsókna styst úr 16 mánuðum í upphafi árs 2020 í sex mánuði. 

 „Þróunin hefur verið sú að fólk geti sótt um það, þegar það sækir um ríkisborgararétt, að senda umsóknina til Alþingis. Þannig var um 10 prósent af umsóknum sem fóru til Alþingis en fór að hækka í kring um 2015. Árið 2020 var þetta komið nær 40 prósentu af ölum umsóknum sem fóru til Alþingis,“ segir Jón í Bítinu í morgun. 

Ráðherra láti persónulega skoðun koma í veg fyrir að farið sé að lögum

Stjórnarandstæðingar voru síður en svo sáttir með ráðherrann í gær. Arndís Anna Gunnarsdóttir þingmaður Pírata sagði á Alþingi í gær ráðherra tala af miklum hroka til þingsins í grein hans á Vísi. 

„Í greininni tekur ráðherra allan vafa af um það að hann telur það í sínum verkahring að stýra vinnu þingsins.“

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði grein ráðherrans forkastanlega. Hann virtist ekki átta sig á innihaldi laga í málaflokki sem hann stýrði.

„Það er grafalvarlegt þegar ráðherra lætur persónulega skoðun sína koma í veg fyrir að stofnanir ríkisins fari að lögum. Það er alveg skýrt í lögum um veitingu ríkisborgararéttar að Alþingi skal veita ríkisborgararétt.“

Breytt verklag kom á óvart

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar sagði annmarka á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt vissulega hafa verið rædda innan undanfarin misseri.

„Sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sem tók til starfa seint í nóvember, kom það okkur vissulega á óvart að það hafi orðið breyting á verklagi Útlendingastofnunar. En það er alveg ljóst að það bréf barst til þáverandi allsherjar- og menntamálanefndar. Ég get tekið undir það að ráðuneyti eða stofnanir ákveða ekki einhliða breytt verklag þingsins,“ sagði Bryndís í gær. 

Jón gaf ekki mikið fyrir gagnrýni stjórnarandstöðunnar og sagði athugavert að ákveðinn hópur fengi að fara fram fyrir röðina á meðan aðrir biðu eftir afgreiðslu umsókna sinna. 

„Vinnulag Útlendingastofnunar var það að taka alltaf umsóknir sem stendar voru til Alþingis, því þetta voru altlaf undantekningar, hraða þeim í gegn um kerfið þannig að Alþingi gæti tekið þær til afgreiðslu. Síðan þegar þetta gerist fer að myndast langur hali og fólki sem ætlar að fara eðlilega leið, fara í biðröðina og fylgja öllum reglum, að umsóknir þeirra eru farnar að sitja eftir,“ segir Jón. 

„Þannig að það er tekin ákvörðun um það, með samtali við Alþingi og löngum fyrirvara, að breyta þessu vinnulagi. Nú eru bara allar umsóknir afgreiddar í þeirri röð sem þær berast. Það sem er að gerast núna er að það er fullt af umsóknum sem eiga að berast Alþingi, sem eru bara í röðinni, en þær hafa ekki verið teknar fram fyrir.“

Ætli ekki að bjóða flýtileið fyrir sérhóp

Hann segir það ekki eiga að vera svo að fólk geti fengið flýtimeðferð og farið fram fyrir röðina með því einu að stíla umsókn sína á Alþingi. 

„Það er verið að vinna alveg samkvæmt lögum en við erum að gæta jafnræðis og gagnsæis.“

Kerfið hafi gengið ágætlega upp þar til fólk fór að átta sig á þessari flýtileið og undantekningin varð að meginreglu. Hann segir þó auðvitað slæmt að flýtimeðferðin sé ekki í boði fyrir þá sem virkilega þurfi á því að halda. 

„Ég ætla ekki að stunda það að vera með einhverja VIP-leið eins og þetta fólk virðist vera að kalla eftir, fyrir einhvern sérhóp, sem fer fram hjá þeim sem eru að bíða í röðinni. Það hafa ekki allir setið við sama borð í þessu og það er það sem við erum að svara og verður að breyta,“ segir Jón. 

„Það eru tilfelli þar sem er eðlilegt að Alþingi grípi inn í og veiti ríkisborgararétt í lögum, þau atvik geta alveg komið upp. Fólk sem er að missa landvistarleyfi eftir þrjá, fjóra mánuði og það er ekki komið að umsókninni þeirra. Fólk sem uppfyllir skilyrðin að öðru leyti. Það er ástæða til að skoða þeirra mál og ekki reka þau úr landi.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.