Kröpp lægð gekk yfir landið og urðu skemmdir á björgunarskipinu Hannesi Hafstein.Aflafréttir
Björgunarskipið Hannes Hafstein sem Björgunarbátasjóður Suðurnesja rekur skemmdist mikið í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær.
Frá þessu greinir fréttamiðillinn Aflafréttir.is. Báturinn var bundinn við flotbryggju í Sandgerðishöfn en stuðpúði á bryggjunni brotnaði af og járn, sem heldur stuðpúðanum, stóð eitt eftir og stakkst inn í skrokk skipsins, svo sjór flæddi inn.
Að sögn Aflafrétta voru allir meðlimir björgunarsveitarinnar Siguvonar í Sandgerði, sem mannar bátinn, í útkalli og því enginn á svæðinu til þess að fylgjast með bátnum á þessum tíma. Sömuleiðis hafi hafnarvörður heldur ekki verið á svæðinu.
Hannes Hafstein fer nú í slipp og samkvæmt Aflafréttum þýðir það að enginn björgunarbátur verður tiltækur á svæðinu, því hinn bátur Sigurvonar er bilaður þessa dagana.
Björgunarsveitir víðs vegar af landinu hafa haft í nógu að snúast í dag vegna veðurofsans sem gekk yfir landið. Verkefnin snerust að miklu leyti um að koma í veg fyrir tjón af völdum foks.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölda útkalla í gær vegna lægðarinnar sem gekk yfir landið með tilheyrandi roki á höfuðborgarsvæðinu.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.