Innlent

Meirihluti getur vel hugsað sér fjarvinnu eftir faraldurinn

Snorri Másson skrifar
Salahverfi í Kópavogi fyrr í mánuðinum. Vafalítið að inni í þessum húsum hafi leynst Kópavogsbúar í heimavinnu. En verða þeir í sömu sporum eftir ár?
Salahverfi í Kópavogi fyrr í mánuðinum. Vafalítið að inni í þessum húsum hafi leynst Kópavogsbúar í heimavinnu. En verða þeir í sömu sporum eftir ár? Vísir/Vilhelm

Tæp 40% Íslendinga hafa áhuga á að vinna að hluta til áfram í fjarvinnu eftir að heimsfaraldrinum lýkur. Atvinnurekendur gætu séð sér hag í að senda fólk heim frekar en að borga fyrir atvinnuhúsnæði.

Frá því að kórónuveiran kom til sögunnar hefur fjöldi starfsfólks úr ólíkum stéttum verið sendur heim til vinnu þegar faraldurinn fer úr böndunum. Og fólk hefur kunnað þessu misvel.

Ef marka má niðurstöður könnunar sem Maskína framkvæmdi á meðal 1700 svarenda eru fleiri sem hefðu áhuga á að halda áfram fjarvinnu eftir faraldurinn en hafa það ekki.

15% segjast hafa mjög mikinn áhuga á fjarvinnu eftir faraldurinn og 24% fremur mikinn, samtals um 39%. Um fjórðungur hefur áhuga í meðallagi á fjarvinnu en samtals hafa um 34% fremur eða mjög lítinn áhuga á fjarvinnu.

Skattar breyti atferli

Fjarvinna virðist því komin til að vera að vissu leyti en að hve miklu gæti að mati forstjóra Reita ráðist meðal annars af opinberum gjöldum.

„Ef vinnustaðurinn færist heim getur það vel verið að háir fasteignaskattar á skrifstofuhúsnæði séu hreinlega hvati til þess fyrir utan allt annað að fólk fari heim til sín og vinni þar, eða er kannski neytt til þess af hálfu vinnuveitanda af því að hann vill ekki sitja uppi með alltof dýrt skrifstofuhúsnæði,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.

Guðjón Auðunsson forstjóri Reita.Vísir/Vilhelm

Fasteignaskattar voru 10% af veltu Reita fyrir nokkrum árum en eru nú 20%. Það þarf ekki að koma á óvart að forstjóranum hugnast ekki sú þróun.

„Háir fasteignaskattar geta hugsanlega haft bein eða óbein áhrif á atferli okkar til að lifa og starfa. Fyrir utan það að þeir eru ekki sérlega góðir fyrir ykkar rekstur? Nei, ég þreytist ekki á að benda á það. Enda eins og ég segi, eru fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði að mínu mati út úr öllu korti á Íslandi,“ segir Guðjón.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.