Sport

Sara hætti keppni í Miami en sagði ekki af hverju: Sóla á verðlaunapall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir entist bara í þrjár greinar á Wodapalooza mótinu í Miami um helgina.
Sara Sigmundsdóttir entist bara í þrjár greinar á Wodapalooza mótinu í Miami um helgina. Instagram/@wodapalooza

Sara Sigmundsdóttir kláraði ekki Wodapalooza CrossFit mótið í Miami um helgina en hún varð að hætta keppni eftir tvo daga af þessu fjögurra daga móti. Sólveig Sigurðardóttur komst aftur á móti á verðlaunapall í liðakeppni kvenna.

Sólveig Sigurðardóttir átti mjög flotta helgi á Flórída en hún var að keppa með hinni sænsku Mia Hesketh og hinni dönsku Julie Hougård Nielsen í liðakeppninni. Þær kepptu undir merkjum GOWOD.

Norðurlandaliðið stóð sig frábærlega og náði þriðja sætinu. Stelpurnar lentu í smá vandræðum fjórða og síðasta daginn en héldu sæti sínu á pallinum.

Það voru ekki eins góðar fréttir af hinum Íslendingnum á mótinu.

Sara Sigmundsdóttir hefur brunað til baka í alvöruna og virðist hafa verið að flýta sér aðeins of mikið. Hún hætti keppni á Wodapalooza eftir aðeins þrjár greinar.

Sara sagði frá þessu í stuttri yfirlýsingu á samfélagsmiðlum en gaf þó ekkert upp um það af hverju hún þurftu að hætta keppni.

„Það hefur verið svo gaman að vera aftur á keppnisgólfinu í Miami og ég er því leið yfir því að þurfa að tilkynna það að ég verði að hætta keppni á Wodapalooza. Ég mun segja meira frá því sem var í gangi hjá mér á næstu dögum. Takk allir fyrir ást og stuðning,“ skrifaði Sara Sigmundsdóttir.

Það lítur samt út fyrir álagið á hana hafi verið of mikið á Söru að keppa á tveimur stórum CrossFit mótum á innan við mánuði eftir að hafa komið til baka átta mánuðum eftir krossbandsaðgerð.

Hún byrjaði mótið í Miami ágætlega, varð fimmta í fyrstu grein og sjöunda í annarri grein. Í þriðju greininni náði hún aðeins þrítugasta sæti og það var hennar síðasta keppnisgrein á mótinu.

Sara hafði endað í sjöunda sæti á mótinu í Dúbaí í desember þar sem hún leit mjög vel út á lokadeginum. Það var aftur á móti innan við mánuður á milli mótanna.

Patrick Vellner vann karlakeppni mótsins en þeir Alexandre Caron og Samuel Cournoyer komust líka á pall.

Emma Mcquaid tryggði sér sigurinn í lokin í kvennakeppninni en Bethany Shadburne varð önnur og Arielle Loewen þriðja. Ástralinn Ellie Turner, sem var í forystu nær allt mótið, féll niður um fimm sæti eftir hörmulega næstsíðustu grein og endaði að lokum sjötta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.