Innlent

„Um­tals­verðar fjár­hæðir“ en ó­ljóst hvernig á að skatt­leggja þær

Snorri Másson skrifar
Guðbjörg Þorsteinsdóttir lögmaður hjá Deloitte Legal.
Guðbjörg Þorsteinsdóttir lögmaður hjá Deloitte Legal. Vísir/Sigurjón

Talið er að þúsundir Íslendinga hafi hagnast verulega á rafmyntarviðskiptum á meðan enginn skýr lagarammi er til um skattlagningu í málaflokknum. Lögfræðingur segir tímabært að stjórnvöld bregðist við breyttum tímum.

Árlegur Skattadagur Deloitte var haldinn í gær í samstarfi við Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins. Á meðal þeirra sem flutti erindi var Guðbjörg Þorsteinsdóttir lögmaður, sem ræddi um ýmsa agnúa sem megi sníða af skattkerfinu. Einn slíkur agnúi er umgjörð rafmynta, þar sem löggjöfin hefur að sögn Guðbjargar dregist aftur úr þróuninni.

„Þúsundir Íslendinga eru að fjárfesta í rafmyntum. Þetta eru umtalsverðar fjárhæðir og það eru fjölmargir sem hafa atvinnu af námugreftri. Ríkisskattstjóri hefur gefið út hvert sitt álit er. Þetta eru skattskyldar tekjur og þú getur haft skattskyldan hagnað af þessu. En það eru samt sem áður engin skýr ákvæði um þetta í lögunum,“ segir Guðbjörg í samtali við fréttastofu.

Vöxtur rafmyntarinnar hefur verið stopull, fyrst hægur en svo ævintýralegur á allra síðustu árum. Sá sem keypti Bitcoin fyrir 100 Bandaríkjadali árið 2011 ætti í dag Bitcoin að andvirði 4,3 milljóna dala. Það er því ljóst að skýr löggjöf um skattlagningu á slíkum hagnaði gæti haft mikla þýðingu.

„Fjármálaráðherra var spurður um þetta 2018 og hann sagði að hann hefði hug á því að skipa starfshóp til að skoða nánari skattlagningu á þessum fyrirbærum. En við höfum ekkert séð í þeim efnum. En nú eru liðin þónokkur ár síðan, þannig að ég held að það sé alveg tímabært,“ segir Guðbjörg.

Taka má dæmi: Ef einhver ætti Bitcoin fyrir um 1.000 dali, sem myndi síðan hækka í verði upp í 1.500 dali, þannig að hagnaðurinn næmi 500 dölum, þyrfti hann að telja það fram?

„Þú átt að telja hann fram,“ segir Guðbjörg. „Skattayfirvöld hafa gefið út leiðbeiningar í þeim efnum. Og þú átt líka að borga fjármagnstekjuskatt af þeim hagnaði. En engu að síður eru þetta fyrirbæri sem voru eðlilega ekki inni í skattalögunum á sínum tíma þegar þau voru sett fyrir áratugum síðan. Þannig að núna er bara mikilvægt að það sé bara tekið sérstaklega á þessu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.