Innlent

Net­þrjótar komust í gögn um not­endur aksturs­þjónustu Strætó

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Upplýsingar um notendur akstursþjónustu Strætó, eins og kennitölur, nöfn og heimilisföng, eru í höndum netþrjótanna. 
Upplýsingar um notendur akstursþjónustu Strætó, eins og kennitölur, nöfn og heimilisföng, eru í höndum netþrjótanna.  Vísir/Vilhelm

Netþrjótar, sem réðust inn í tölvukerfi Strætó í desember, komust yfir kerfi Strætó sem hýsir gögn sem tengjast akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra. Komust þeir meðal annas yfir nöfn, kennitölur og heimilisföng þeirra sem nota þjónustuna. 

Strætó varð fyrir netárás frá erlendum árásaraðilum í lok desember sem náðu að brjóta sér leið  inn í netkerfi Strætó og afrita þar gögn og upplýsingar. Ekki var ljóst fyrr en nú hvaða upplýsingar þrjótarnir komust yfir. 

Fram kemur í tilkynningu frá Strætó að árásaraðilarnir hafi komist yfir upplýsingar um nöfn, kennitölur, heimilisfang og eftir atvikum símanúmer og/eða netfang notenda akstursþjónustunnar. Þá hafi þeir komist yfir upplýsingar um þjónustuþarfir og sérþarfir notendanna, upplýsingar um aðstoð fylgdarmanns og notkun hjálpartækja, afrit af ferðapöntunum og reikningum, afrit af erindum og fyrirspurnum auk afrita af tölvupóstsamskiptum. 

Þá hafi þeir komist yfir upplýsingar um forráðamenn og tengiliði notenda þjónustunnar, til dæmis yfir nöfn þeirra, kennitölur, símanúmer, netfang og tengsl við notendur auk afrita af erindum, fyrirspurnum og tölvupóstsamskipum. 

Tölvuþrjótarnir hafa krafið Strætó um greiðslu og hótað því að leka viðkomandi gögnum verði Strætó ekki við kröfum þeirra. Í samræmi við leiðbeiningar netöryggissveitar Íslands muni Strætó ekki verða við þeim kröfum. 

Fram kemur í tilkynningu frá Strætó að persónuvernd hafi verið upplýst um málið og hafi sveitarfélögin, sem Strætó þjónustar, og Strætó verið í miklum samskiptum við stofnunina vegna þessa. 

Rannsókn málsins standi þá enn yfir og gripið hafi verið til umfangsmikilla ráðstafana til að loka á aðgang umræddra aðila og takmarka áhrif á réttindi og frelsi þeirra einstakilnga sem Strætó vinni upplýsingar um. Búið sé að loka til dæmis á aðgang tilgreindra IP talna og tilgreindra aðganga að kerfum Strætó.

Ekkert bendi til þess að árásaraðilarnir hafi eða geti misnotað þessar upplýsingar, en ekki sé hægt að útiloka að upplýsingarnar verði birtar opinberlega af tölvuþrjótunum. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.