Lífið

Stjörnurnar minnast Bob Saget

Elísabet Hanna Maríudóttir skrifar
Bob Saget og John Stamos voru miklir vinir.
Bob Saget og John Stamos voru miklir vinir. Getty/ Bruce Glikas

Ástkæri leikarinn og grínistinn Bob Saget kvaddi þennan heim skyndilega í gær og eru vinir hans og samstarfsfólk um allan heim að minnast hans með fallegum orðum og sögum.

Bob fannst látinn á hótelherbergi sínu á Ritz-Carlton hótelinu í Orlando í Flórída í gær skömmu eftir að hann lauk við uppistand á svæðinu. Hann lýsti því yfir á Instagram miðli sínum fyrr um kvöldið hvað hann væri ánægður að vera kominn aftur í uppistandið sem hann var í á sínum yngri árum.

Josh Radnor, sem lék Ted í How I met your mother, minnist leikarans í nokkrum færslum á Twitter reikningnum sínum í dag. Bob var rödd eldri og vitrari Teds í gegnum þættina sem voru í loftinu í níu ár. Hann lýsir því hvernig Bob hafi tekið honum opnum örmum og hjálpað honum að finna öryggi í nýja hlutverkinu. Hann segir vináttu þeirra hafa verið sérstaka, þeir dýrkuðu hvorn annan og voru duglegir að tjá það sín á milli.

„Ég er endalaust þakklátur að HIMYM hafi komið með Bob Saget í lífið mitt. Ég mun heyra röddina hans í hausnum á mér þangað til ég kveð sjálfur.“

 Sagði leikarinn í lok færslunnar.

Tvíburasysturnar Mary-Kate og Ashley Olsen minnast hans einnig en Bob lék föður þeirra í fyrsta hlutverkinu sem þær léku. Þá voru þær aðeins 9 mánaða gamlar og fóru með hlutverk Michelle Tanner í Full house. Systurnar eru þekktar fyrir að halda sig frá fjölmiðlum svo yfirlýsingar frá þeim eru fátíðar.

 „Bob var elskulegur, umhyggjusamur og örlátur maður. Við erum mjög sorgmæddar að heyra að hann sé ekki lengur hjá okkur en vitum að hann mun áfram fylgja okkur og leiðbeina á sama hátt og hann hefur alltaf gert. Við erum að hugsa til dætra hans, konunnars hans og fjölskyldu og sendum þeim samúðarkveðjur.“ Sögðu Mary-Kate og Ashley Olsen í sameiginlegri yfirlýsingu.

Bob Saget lék föður Michelle Tanner í Full House, hlutverk sem Olsen tvíburarnir skiptu á milli sín.Getty/ Shawn Ehlers

Fleiri leikarar úr þáttunum góðkunnu Full House minnast hans einnig og virðast allir vera á sama máli um það að Bob hafi verið dásamlegur maður. Þau John Stamos, Dave Coulier og Candace Cameron Bure sem voru í þáttunum senda honum mikla ást.

Það er ekki aðeins sjónvarpsfjölskyldan sem sendir honum fallegar kveðjur á samfélagsmiðlum heldur eru fleiri stjörnur með falleg orð til hans. Það fer ekki á milli mála að Bob hefur verið fyndinn, hvetjandi, ástkær og hjartahlýr maður.

Bob lætur eftir sig eiginkonuna Kelly Rizzo og þrjár dætur úr fyrra hjónabandi. 

„Þó að við óskum eftir næði á þessum tíma viljum við bjóða ykkur að minnast ástarinnar og hlátursins sem Bob kom með í þennan heim.“ 

Kemur fram í yfirlýsingu frá fjölskyldunni og verður Bob sárt saknað af fjölskyldu, vinum og samstarfsmönnum.


Tengdar fréttir

Bob Saget er látinn

Bandaríski leikarinn og grínistinn Bob Saget, sem þekktastur er fyrir leik sinn í þáttunum Full House, er látinn, 65 ára að aldri. Hann fannst látinn á hótelherbergi sínu á Ritz-Carlton hótelinu í Orlando í Flórída í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.