Lífið

Bob Saget er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Margir þekkja Bob Saget einnig sem sögumanninn í þáttunum How I Met Your Mother.
Margir þekkja Bob Saget einnig sem sögumanninn í þáttunum How I Met Your Mother. AP

Bandaríski leikarinn og grínistinn Bob Saget, sem þekktastur er fyrir leik sinn í þáttunum Full House, er látinn, 65 ára að aldri. Hann fannst látinn á hótelherbergi sínu á Ritz-Carlton hótelinu í Orlando í Flórída í gær.

Starfsfólk hótelsins kallaði til sjúkralið eftir að hafa komið að Saget meðvitundarlausum og var hann svo úrskurðaður látinn á staðnum. Ekki liggur fyrir um orsök andlátsins að svo stöddu, en í frétt BBC er tekið fram að ekki neitt saknæmt hafi átt sér stað.

Saget var nýbyrjaður í uppistandsferðalagi og hafði skemmt áhorfendum í Jacksonville í Flórída síðast á laugardagkvöldinu. Að sýningu lokinni deildi hann því á Instagram hvað hann væri ánægður með að vera byrjaður að skemmta á ný.

Í þáttunum Full House, sem framleiddir voru á árunum 1987 til 1995 fór Saget með hlutverk ekkilsins Danny Tanner og sagði þar frá uppeldi hans á þremur dætrum sínum með aðstoð tveggja bræðra sinna sem þeir John Stamos og Dave Coulier túlkuðu. Candace Cameron Bure, Jodie Sweetin fóru með hlutverk tveggja elstu dætranna, DJ og Stephanie, og Mary-Kate og Asley Olsoen skiptust á að túlka þá yngstu, Michelle.

Síðar meir átti Saget einnig eftir að stýra þáttunum America‘s Funniest Home Videos og vera sögumaðurinn í þáttunum How I Met Your Mother.

Saget setti sig aftur í spor Tanner þegar Netflix hóf framleiðslu á þáttunum Fuller House árið 2016 þar sem kastljósinu var beint að eldri dætrum Tanner sérstaklega.

Samstarfsmenn Sagets hafa margir minnst hans á samfélagsmiðlum, þeirra á meðal Candace Cameron Bure, sem fór með hlutverk DJ Tanner í Full House og Fuller House.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.