Innlent

Fyrsta barn ársins fæddist á miðri leið til Akur­eyrar: „Þetta er svona hálf­­­gert ösku­bu­sku­­ævin­týri“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Elfa Sif Kristjánsdóttir og Ásgeir Frímannsson með dótturina nýfæddu.
Elfa Sif Kristjánsdóttir og Ásgeir Frímannsson með dótturina nýfæddu. Aðsend

Fyrsta barn ársins fæddist í sjúkrabíl á miðri leið til Akureyrar. Foreldrar barnsins voru í sjötugsafmæli á Siglufirði þegar móðirin, Elfa Sif Kristjánsdóttir, missti vatnið. Hringt var á sjúkrabíl og barnið fæddist í bílnum, við Kálfsskinn. 

Settur dagur var eftir tvær vikur, þann 14. janúar, og segir Ásgeir Frímansson, nýbakaður faðir barnsins, að dóttirin hafi greinilega verið að flýta sér í heiminn. Móður og barni heilsast vel og fæðingin gekk vonum framar: „Þetta er svona hálfgert öskubuskuævintýri, vera í sjötugsafmæli hjá tengdaföður og fæða svo á miðri leið á milli,“ segir Ásgeir.

Foreldrarnir voru í sjötugsafmæli hjá föður Elfu á Siglufirði og atburðarásin kom þeim heldur betur á óvart. Elfa missti vatnið skyndilega og hringt var á sjúkrabíl sem kom skömmu síðar, en fyrirhugað var að aka frá Siglufirði á sjúkrahúsið á Akureyri. Barnið fæddist svo í bílnum, við afleggjara að bænum Kálfaskinni á Árskógssandi, segir á akureyri.net.

„Hún flýtti sér og vildi komast hratt og örugglega, segir Ásgeir í samtali við fréttastofu og bætir við að það hafi gengið rosalega vel: „Hérna sofa þær mæðgur og heilsan virkilega góð. Litla er búin að sofa held ég síðan hún fæddist,“ segir faðirinn nýbakaði og hlær.

Skemmtileg tilviljun 

Á akureyri.net kemur fram að skemmtileg tilviljun sé að stúlkan hafi fæðst við Kálfsskinn. Þar hafi til áratuga búið ljósmóðirin Ása Marinósdóttir ásamt Sveini Jónssyni, bónda og húsasmíðameistara.

Akureyri.net hefur eftir Ásu að um dásamlega tilviljun sé að ræða.

„Ég tók á móti einum 20 til 30 börnum heima í Kálfsskinni á sínum tíma, einmitt vegna þess að móðirin komst ekki lengra. Nokkur fæddust í gamla húsinu en þegar Sveinn byggði stóra húsið hafði hann sérstakt herbergi fyrir mig, ef konur þyrftu að fæða hjá okkur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×