Innlent

„Búinn að vera hjá slökkvi­liðinu í þrjá­tíu ár og aldrei upp­lifað aðra eins nótt“

Atli Ísleifsson skrifar
Eldur kom upp í sinu við Úlfarsfell.
Eldur kom upp í sinu við Úlfarsfell. Axel Már Arnarsson

„Ég er búinn að vera hjá slökkviliðinu í þrjátíu ár og aldrei upplifað aðra eins nótt,“ segir varðstjóri hjá slökkviliðinu hjá höfuðborgarsvæðinu, aðspurður um hvernig nóttin hafi verið.

Hann segir að frá því um kvöldmatarleytið í gær hafi slökkvilið farið í um sjötíu útköll á slökkvibílum og í um áttatíu sjúkraflutninga.

„Við vorum að fara í allt mögulegt. Það kom upp eldur í tveimur húsum – í Kópavogi og Grafarvogi. Það voru gróðureldar hér og þar. Meðal annars kom upp eldur í sinu fyrir ofan Bauhaus í Úlfarsárdal og annar fyrir neðan Korpúlfsstaði. Svo var tilkynnt um eld í ruslatunnum, póstkössum og fleiru. Ég hef aldrei upplifað annað eins á mínum ferli.“

Upp úr miðnætti biðlaði varðstjóri hjá slökkviliði til almennings að hætta að skjóta upp flugeldum vegna allra þeirra elda sem voru að kvikna á víð og dreif um alla borg. Í samtali við fréttastofu lýsti hann ástandinu sem „skelfilegu“.

„Þetta voru stórir gróðureldar sumir hverjir. Það kviknaði í lúpínubreiðum [í Grafarvogi] og þetta var bara hörkumikið bál og erfitt að eiga við. Þetta var ekki bara í Reykjavík heldur veit ég að Akranes var í hörkueldum og Selfyssingarnir voru líka,“ segir varðstjóri hjá slökkviliðinu.


Tengdar fréttir

Slökkvilið höfuðborgarsvæðinsins biðlar til fólks um að hætta að skjóta upp flugeldum

„Þetta er bara skelfilegt,“ sagði vaktmaður hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu þegar fréttastofa náði tali af honum rétt í þessu. Vísi hefur borist fjöldi ábendinga um gróðurelda sem hafa kviknað útfrá brennum eða flugeldum og samkvæmt upplýsingum frá vakt slökkviliðsins hefur mannskapurinn farið í 50 útköll það sem af er kvöldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×