Enski boltinn

Þríeyki United missir af leiknum við úthvíldan Jóhann

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes, Paul Pogba og Victor Lindelöf verða ekki með gegn Burnley en David de Gea verður væntanlega í markinu.
Bruno Fernandes, Paul Pogba og Victor Lindelöf verða ekki með gegn Burnley en David de Gea verður væntanlega í markinu. Getty/Ash Donelon

Manchester United verður án að minnsta kosti þriggja leikmanna þegar liðið tekur á móti Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í síðasta leik sínum á þessu ári.

United og Burnley mætast annað kvöld í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Á heimasíðu United er staðfest að Svíinn Victor Lindelöf missi af þeim leik, rétt eins og 1-1 jafnteflinu við Newcastle á mánudagskvöld, vegna kórónuveirusmits.

United spilaði ekki leik í rúmar tvær vikur vegna hópsmits hjá félaginu en Lindelöf er eini leikmaðurinn sem ljóst er að missir af leiknum á morgun vegna smits.

Bruno Fernandes fékk gult spjald í leiknum við Newcastle og verður í banni á morgun. Þá er Paul Pogba enn að komast í gang eftir meiðsli sín í læri og verður ekki með.

Góðu fréttirnar fyrir United eru þær að Raphael Varane var með gegn Newcastle og er því klár í slaginn á ný eftir meiðsli, líkt og Edinson Cavani sem kom inn á í leiknum og skoraði.

Jóhann og félagar ættu að vera úthvíldir því þeir hafa ekki spilað leik síðan 12. desember, þar sem leikjum þeirra við Aston Villa og Everton var frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×