Innlent

Skjálfti upp á 3,7 fannst á höfuðborgarsvæðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reykjanesið í grennd við Keili séð úr flugvél Ragnars Axelssonar ljósmyndara.
Reykjanesið í grennd við Keili séð úr flugvél Ragnars Axelssonar ljósmyndara. Vísir/RAX

Jarðskjálfti 3,7 að stærð fannst nokkuð vel á höfuðborgarsvæðinu og víða á suðvesturhorninu um klukkan tuttugu mínútur yfir tíu. 

Fram kom á vef Veðurstofunnar í morgun að rólegt hafi verið á slóðum skjálftahrinunnar við Fagradalsfjall í nótt. Frá miðnætti fram á morgun höfðu tæplega 90 skjálftar mælst, allir í minni kantinum.

Í gærdag mældust síðan í heild um 1.300 jarðskjálftar á öllum Reykjanesskaganum og segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar það sé mun minni virkni en daginn þar á undan, þegar um 2.300 skjálftar mældust.

Síðasti stóri skjálftinn kom um klukkan hálfþrjú í gær. Sá mældist 3,9 stig og átti upptök sín við Hofmannaflöt. Sá skjálfti fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og austur á Hellu.

Fyrr um morgunin hafði annar skjálfti upp á 3,4 stig riðið yfir á sömu slóðumn og var þar um svokallaða gikkskjálfta að ræða. Talið er að orsök slíkra skjálfta megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×