Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítalans, segir að gera megi ráð fyrir því að alvarleiki veikinda vegna ómíkrons-afbrigðis verði minni ef völdum annarra afbrigða ef litið er til reynslu annarra landa.
„Það eru ekki nema um þrír held ég þegar ég vissi síðast, sem reynst hafa [verið með] ómíkron-afbrigðið af þeim sem liggja inni. Það eru á gjörgæsludeildunum held ég fimm einstaklingar sem stendur, þar af þrír í öndunarvél. En ég hygg að þeir hafi allir smitast af delta-afbrigðinu,“ segir Runólfur.
Hann segir að þrátt fyrir að nýja afbrigðið virðist minna smitandi sé staðan á spítalanum mjög slæm. Þreyja þurfi þorran næstu fimm til sex vikurnar og mönnunarvandi verði líklega stærsta vandamál spítalans á næstu vikum. Um hundrað starfsmenn spítalans eru í einangrun og jafnmargir í sóttkví.
„Við eigum fullt í fangi við með að veita þjónustu við ýmsum bráðum og misalvarlegum veikindum og það eru skurðaðgerðir sem eru mjög brýnar sem geta ekki beðið vegna lífshótandi sjúkdóma, krabbameina, hjartasjúkdóma og svo framvegis. Öllu þessu verðum við að sinna. Við verðum að forgangsraða þessu og nýta okkar starfskrafta eins og við mögulega getum,“ segir Runólfur.
Runólfur fagnar því að fólk virðist síður veikjast af afbrigðinu en hefur þó áhyggjur af smithæfni ómíkron-afbrigðisins. Fólk fari jafnvel hingað og þangað með lítil eða engin einkenni og geti smitað viðkvæma hópa. Staðan sé þó betri en áður enda margir bólusettir.
„Við erum enn þá með þessa viðkvæmu hópa sem við þurfum að vernda og jafnvel þó að þeir einstaklingar séu bólusettir þá geta þeir veikst alvarlega og svo eru náttúrulega einhverjar þúsundir, kannski tuttugu, þrjátíu þúsund einstaklingar sem eru óbólusettir.“