Innlent

Hvetja fólk til að fámenna: „Við venju­legar kring­um­stæður hefði það auð­vitað fyllt mann af angri og depurð“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Séra Skúli Sigurður Ólafsson
Séra Skúli Sigurður Ólafsson Neskirkja

Helgi­hald hefur víða verið með ó­hefð­bundnu sniði vegna kórónu­veirufar­aldursins. Séra Skúli Sigurður Ólafs­son, sóknar­prestur í Nes­kirkju, segir að vel hafi gengið en ó­venju­legt hafi verið að þurfa hvetja fólk til að mæta ekki í messu.

Kórónu­veiran leynist víða og helgi­hald yfir há­tíðarnar hefur verið með ó­hefð­bundnu sniði þetta árið. Í fyrra lögðust messur nánast al­farið af en í ár hefur prestum verið unnt að dreifa boð­skapi Jesú Krists „í per­sónu,“ þó með all­nokkrum tak­mörkunum.

„Venju­lega náttúru­lega þá notar maður sögnina að fjöl­menna er það ekki, þegar maður hvetur fólk til að mæta í stórum stíl. En við vorum að grínast með það í Nes­kirkju að við værum svona frekar að hvetja fólk til að fá­menna þessi jólin,“ segir sóknar­presturinn og bætir við að unnt sé að taka á móti kirkju­gestum með notkun hrað­prófa í sam­ræmi við gildandi tak­markanir.

Sem dæmi tóku um sjö hundruð manns þátt í helgi­haldi á að­fanga­dag í Nes­kirkju árið 2019 en þetta árið voru ekki nema tæplega fimm­tíu sem mættu í jóla­messuna. Skúli segist þó glaður yfir því að hafa fengið að taka á móti kirkju­gestum: „Við venju­legar kring­um­stæður hefði það auð­vitað fyllt mann af angri og depurð. En þetta var náttúru­lega bara í ljósi að­stæðna,“ segir Skúli.

„Þetta er tals­vert minna heldur en í meðal­ári en í fyrra auð­vitað þá var allt sam­komu­hald bannað yfir jólin. Þá sat maður bara með hendur í skauti og ég er náttúru­lega þakk­látur fyrir það að við skulum þó geta efnt til þessarar dag­skrár í kirkjunni. Þó lítil hafi verið og fá­menn,“ segir sóknar­presturinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×