Innlent

Finnur ekki eigin­konuna og krefst skilnaðar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar á næsta ári. 
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar á næsta ári.  Vísir/Vilhelm

Íslenskur karlmaður segist ekki hafa hitt eiginkonu sína í sextán ár og krefst því skilnaðar. Stefnan var nýlega birt í Lögbirtingablaðinu enda hefur manninum ekki tekist að hafa uppi á eiginkonunni til að birta henni stefnuna með hefðbundnum hætti.

Hjónin kynntust árið 2005 og gengu fljótlega í hjónaband. Eiginkonan er frá Brasilíu og þó hún hafi íslenska kennitölu hefur hún aldrei verið með skráða búsetu hér á landi. Hjónin fluttu saman til Brasilíu skömmu eftir giftinguna þar sem þau hugðust koma sér fyrir. Mbl.is greindi fyrst frá.

Maðurinn hóf fljótlega störf sem sjómaður og var hann á sjó í um tvo mánuði samfleytt skömmu eftir komuna til Brasilíu. Þegar hann loks kom í land var eiginkonan á bak og burt. Maðurinn hefur aldrei séð hana síðan.

Hjónin höfðu ekki eignast börn eða komið sér upp heimili og eiginmaðurinn hefur ekki hugmynd um hvar konan gæti verið niðurkomin. Hann hefur meðal annars leitað á náðir brasilíska sendiráðsins í Ósló en sendiráðið hefur engin svör gefið.

Í stefnunni segir að nafn eiginkonunnar sé algengt og manninum hafi ekki tekist að fá neinar upplýsingar eða vísbendingar um mögulega búsetu konunnar. Maðurinn er því tilneyddur að birta stefnuna opinberlega í Lögbirtingablaðinu en Héraðsdómur Reykjavíkur tekur málið fyrir á nýju ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×