Innlent

Mesta myrkrið yfirstaðið seinnipartinn í dag

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Vetrarsólstöður marka syðstu og lægstu stöðu sólar á himinum og hún byrjar þá að hækka á lofti.
Vetrarsólstöður marka syðstu og lægstu stöðu sólar á himinum og hún byrjar þá að hækka á lofti. Vísir/Vilhelm

Vetrarsólstöður verða hér um klukkan 16 í dag. Þá tekur dagana að lengja á ný. Þessari stöðu himintunglanna hefur verið fagnað á ýmsan hátt á norðurhveli jarðar í gegn um tíðina, enda tilefnið ærið. Sólin verður eins langt í suðri og hún mögulega getur. 

Sólstöður verða tvisvar á ári. Þá er sólin stödd lengst frá miðbaug himins, annað hvort til norðurs eða suðurs. Sumarsólstöður, þegar dagurinn er lengstur, eru í kring um 21. júní. Vetrarsólstöður, þegar dagurinn er stystur, eru alltaf í kring um 21. desember. Þær verða í dag klukkan 15:58. Þá er sólin á þeim stað á sólbaugnum sem er lengst suður af miðbaug himins. Vetrarsólstöður marka í raun syðstu og lægstu stöðu sólar á himninum. Frá og með deginum í dag tekur sól að hækka á lofti á ný og dagurinn í dag verður örlítið lengri en dagurinn í gær. Og svoleiðis verður þróunin fram á sumar, mörgum eflaust til mikillar ánægju.

„Sex mánuðum síðar eða þann 20. til 22. júní nær sólin þeim stað á sólbaugnum sem er lengst norður af miðbaug himins. Verða þá sumarsólstöður sem marka nyrstu og hæstu stöðu sólar á himninum. Byrjar þá sólin aftur að lækka á lofti. Breytileiki dagsetningana stafar af því að almanaksárið er ekki jafnlangt árstíðaárinu,” segir á Stjörnufræðivefnum.

Yule, jul eða bara jól

Fjölmörg trúarbrögð víða um heim fagna vetrarsólstöðum sem sérstökum hátíðardögum. Nærtækast er hér að nefna á ensku Yule (borið fram Júl), sem er helgur dagur í norður-evrópskum heiðnum trúarbrögðum. Yule, eða bara jól, er sannarlega hátíð ljóssins, þar sem hækkun sólarinnar og stöðu himintunglanna er fagnað. Geitin, eplin, sígrænu barrtrén og villibráðin voru þarna í hávegum höfð - og eins og með svo margt annað frá fornu fari, hefur það varðveist í nútímanum í örlítið breyttri mynd.

Sólarlag rétt fyrir kaffi

Þessi tími ársins er skiljanlegt fagnaðarefni, þar sem sólin hefur verið af mjög skornum skammti á norðurhveli jarðar undanfarnar vikur. Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands er hádegi í dag klukkan 13:26 og sólarlag tveimur tímum síðar, klukkan 15:31. Myrkur er formlega skollið á klukkan 16:48 í Reykjavík í dag og aðeins fyrr á Akureyri, klukkan 16:19. Himininn yfir Reykjavík nú fyrir hádegi virðist í fljótu bragði ætla að nýta þessar fáu birtustundir vel. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.