Lífið

„Því meira sem þú segist vera eitthvað, því minna ert þú það“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Máni gaf út sjálfshjálparbók á dögunum. 
Máni gaf út sjálfshjálparbók á dögunum. 

Fjölmiðlamaðurinn Þorkell Máni Pétursson gaf á dögunum út bókina Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi og ræddi Sindri Sindrason við Mána um bókina í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær.

„Ég fór í meðferð árið 1996 þegar ég var tvítugur og það er hægt að segja að þessi bók sé 25 ára ferðalag,“ segir Máni en um er að ræða sjálfshjálparbók, bók um góð samskipti og segir hann að margt muni koma á óvart.

„Það er til dæmis einn kafli sem fjallar um það að hafðu vit á því að halda kjafti og hlusta og allri sem hafa heyrt mig tala hugsa eflaust, hann getur ekki farið eftir þessu en það stendur líka í bókinni að ég eigi mjög erfitt með að fara eftir þessu.“

Máni segir að þau vandamál sem fólk takist á við séu alls ekki bundin aðeins við þau, það séu allir að takast á við sömu vandamálin.

„Einn af mínum uppáhalds köflum fjallar um að því meira sem þú segist vera eitthvað, því minna ert þú það. Þetta fjallar um hvað við erum oft að reyna finna okkur á samfélagsmiðlum.“

Máni segir einnig frá kaflanum sem fjallar um að lélegt makaval sé merki um lélegt sjálfstraust.

„Þú velur þér alltaf maka á þeim stað sem þú ert í lífinu. Ef þú ert með gott sjálfstraust þá velur þú þér maka með gott sjálfstraust,“ segir Máni.

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×