Innlent

Sakar seðla­banka­stjóra um rit­stuld

Jakob Bjarnar skrifar
Bergsveinn telur engan vafa á leika að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi í nýrri bók sinni stuðst við bók hans Leitina að svarta víkingnum í veigamiklum atriðum, annað sé beinlínis útilokað.
Bergsveinn telur engan vafa á leika að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi í nýrri bók sinni stuðst við bók hans Leitina að svarta víkingnum í veigamiklum atriðum, annað sé beinlínis útilokað. vísir/vilhelm/Fröydis Lindén

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og fræðimaður, telur engan vafa á leika að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, hafi í veigamiklum atriðum stuðst við bók hans Leitina að svarta víkingnum í bók sinni Eyjan hans Ingólfs. Án þess að geta heimilda. Það heitir rit- og hugmyndastuldur.

Bergsveinn hefur ritað stutta greinargerð sem hann birtir á Vísi þar sem hann fer í saumana á þessu sem hann kallar „plagíarisma“. Þar segir meðal annars:

„Að saka einhvern um ritstuld er alvarlegt mál. Það gerir enginn að gamni sínu. En ritstuldur sá sem ég tel Ásgeir Jónsson vera sekan um í þessu tilfelli er að sama skapi grafalvarlegt mál. Það gerir málið enn alvarlegra að seðlabankastjóri Íslands sé uppvís að þjófnaði á hugverkum annarra.“

Hefur sent málið til siðanefndar Háskóla Íslands

Bergsveinn segist ekki geta að því gert en honum sýnist í þessu dæmi speglast margt af þeirri „hagfræði sem reið húsum hér í upphafi aldar, nefnilega sú að vissir útvaldir hafi fullan rétt á að eigna sér það sem aðrir hafa lagt hart að sér við að búa til. Ef leyfa á þeirri hugmyndafræði að leggja undir sig vísindi og listir, er vissulega um endalok húmanismans að ræða, og, við nánari íhugun, endalok allra vísinda og lista. Hef ég því lagt málið fyrir Siðanefnd Háskóla Íslands og Nefndar um vandaða starfshætti í vísindum.“

Í stuttu samtali við Vísi segir Bergsveinn það einfaldlega hafa verið svo að góður félagi hans sem hefur mikinn áhuga á hans skrifum um Svarta víkinginn, meðal annars, nefnt bók Ásgeirs í skeyti.

Varð mjög sleginn þegar hann las bók Ásgeirs

„Hann sagðist hafa litið á hana og sýndist að Ásgeir væri að fjalla um mikið það sama og ég og á sama hátt. Án þess að hann sæi að hann nefndi mína bók. Þess vegna ákvað ég að kaupa þessa bók og lesa hana. Bara til að sjá vort það væri eitthvað hæft í þessu. Og ég varð mjög sleginn.“

Það kom sem sagt á daginn að í bók Ásgeirs var harla margt sem kom Bergsveini kunnuglega fyrir sjónir, og það án þess að heimilda væri getið.

Bækurnar tvær, Leitin að svarta víkingnum og nýútkomin bók Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs.

„Ég sé að hann gefur bókina út fyrir að vera fræðilega umfjöllun. Maðurinn er með doktorspróf í hagsögu, hann vísar til ýmissa rita og greina í neðanmálsgreinum og endar bókina á að segja að hann voni að, eins og hann segir; þessi umfjöllun hans, „af minni hendi verði upphaf af nýrri umræðu um landnám Íslands“,“ segir Bergsveinn. En ekki er víst að umræðan verði eins og seðlabankastjóri vonast eftir.

Vill vara almenning við bók seðlabankastjóra

„Það er ekki hægt að skilja bókina öðru vísi en svo að þegar hann ekki vísar til neinna fræðimanna þá sé hann ýmist að vísa í miðaldaheimildir eða sína eigin túlkun á miðaldaheimildum. Ég sá hins vegar að hans túlkanir á miðaldaheimildum féllu á margan hátt mjög þétt og mjög saman við mínar túlkanir á þessum sömu heimildum.“ En nánar er farið í saumana á einmitt þessu í grein Bergsveins.

Bergsveinn hefur, eins og áður segir, sent málið til siðanefndar Háskóla Íslands og Nefndar um vandaða starfshætti í vísindum sem á að hafa breiðara verksvið.

„En ég ákvað að gera almenningi viðvart vegna þess að bókin er komin í sölu og höfundur er að kynna bókina á ýmsum vettvangi. Ég leit á það sem mína borgaralegu skyldu að fólk yrði upplýst um vinnubrögð sem búa að baki bókinni.“

Enginn vafi í huga Bergsveins

Bergsveinn segir jafnframt að hann muni gera skýrari grein fyrir málsvöxtum í grein í ritrýndu tímariti en það mun taka kannski hálft ár áður en það kemst á prent og yrði það of seint fyrir lesendur að átta sig á hvernig í pottinn er búið.

„Ég er einungis upptekinn af því að hið rétt komi fram og þetta er slík grundvallarregla í öllum fræðastörfum að maður geti þeirra hugmynda og kenninga sem maður kynnir í sínu verki ef maður hefur fengið það annars staðar frá en frá sjálfum sér.“

En þú telur sem sagt engan vafa á leika að þarna sé um ritstuld að ræða?

„Ég tel engan vafa leika á, því ég gerði heimavinnuna mína á sínum tíma og veit að Geirmundur heljarskinn er einungis kynntur sem bóndi með mikið af búfénaði, landbúnaðarherra, í miðaldarheimildum. Það er hvergi getið um þessa veiðimenningu sem hann stóð í forvígi fyrir nema í minni bók sem síðan endurómar í gegnum alla bók Ásgeirs, sem þá, eins og ég skil sem lesandi, er hans eigin uppgötvun,“ segir Bergsveinn.

Kristján Már Unnarsson fjallaði um á sínum tíma, eða í desembermánuði 2018, um rannsóknir á hvarfi sérstaks stofns rostunga við Ísland og að það rímaði við kenningar Bergsveins í bókinni Leitinni að svarta víkingnum og að Geirmundur heljarskinn hafi gengið hart fram í rostungsveiðum.


Tengdar fréttir

Stolið og rangfært – um Eyjuna hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónsson

Út er komin bókin Eyjan hans Ingólfs (héreftir EHI) eftir Ásgeir Jónsson. Útgefandi er Almenna bókafélagið (2021). Höfundur er með doktorsgráðu í hagfræði og var deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands. Höfundur starfar nú sem seðlabankastjóri Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×