Innlent

Endur­skoða þurfi prófa­fyrir­komu­lag í Co­vid fyrir næsta misseri

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs HÍ.
Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs HÍ. Vísir/arnar

Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir að endurskoða þurfi fyrirkomulag staðprófa í háskólanum á tímum heimsfaraldurs eftir að upp kom smit í prófi við HÍ. 

Greint var frá því í gær að stúdentinn Sandra Ósk Jóhannsdóttir hafi deilt prófstofu með Covid-sýktum samnemanda þann 2. desember síðastliðinn. Sagðist Sandra í samtali við fréttastofu óttast að hún hafi útsett föður sinn, sem er í áhættuhópi, fyrir smiti en hún var ekki send í sóttkví þrátt fyrir að hafa deilt lítilli stofu með aðeins sex öðrum. 

Stúdentar við háskólann hafa frá upphafi faraldursins barist fyrir því að fá að taka heimapróf af sóttvarnaástæðum. Helstu rök Háskóla Íslands gegn því hafa hingað til verið þau að enginn hafi hingað til greinst smitaður af Covid í prófatíð við háskólans. Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) segir þessi rök varla eiga við lengur. 

„Stefna Háskóla Íslands hefur verið frá upphafi þessa faraldurs að bjóða upp á rafræna kennslu með möguleika á staðnámi í samræmi við tilmæli heilbrigðisyfirvalda hverju sinni. Þetta er alveg mikilvægur punktur í umræðuna því að fyrir ári vorum við að fást við þessar reglugerðir um takmarkanir á skólastarfi vegna hertra sóttvarnaaðgerða sem veittu skólunum heimild til að halda í það fyrirkomulag sem að þau voru þegar búin að ákveða,“ segir Isabel í samtali við fréttastofu. 

Snúist um jafnrétti stúdenta til náms

Hún segir núverandi sóttvarnaaðgerðir hafa gert það að verkum að háskólinn hafi getað háttað fyrirkomulagi áfram eins og hann vildi. Hún segir þetta þó grundvallaratriði í jafnrétti allra til náms þar sem ekki allir geti þreytt staðpróf. 

„Þetta snýr að jafnrétti stúdenta til náms því það eru stúdentar sem búa við mjög ólíkar aðstæður og er mjög fjölbreyttur hópur og það eru ekki allir sem sjá sér fært að mæta hér í próf. Og það er örugglega einhver hópur sem hefur ekki stigið fæti hér inn til að taka próf,“ segir Isabel. 

Fram kemur í skriflegu svari frá Róberti H. Haraldssyni, kennslustjóra HÍ, við fyrirspurn fréttastofu um málið að stúdentum, sem séu í áhættuhópi eða búi við sérstakar aðstæður, standi til boða að þreyta próf í svokölluðu fárými, þar sem fáir séu samankomnir. 

„Höfum við auglýst það úrræði vel innan Háskólans. Með slíku úrræði er hægt að lágmarka enn frekar hættuna á smiti,“ segir í svari Róberts, en Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, var ekki til viðtals í dag þegar fréttastofa óskaði eftir því. 

Á borði fræðasviða að ákveða fyrirkomulag prófa í lokin

„Í öllu starfi HÍ fylgjum við kröfum heilbrigðisyfirvalda til hins ítrasta á tímum heimsfaraldurs. Á það við um framkvæmd staðprófa, sem og um annað skólahald. Við höfum einsett okkur að hafa skólahaldið sem eðlilegast innan þess ramma sem tilmæli heilbrigðisyfirvalda hverju sinni leyfa,“ segir í svari Róberts. 

„Í Háskóla Íslands eru fjölmargar námsgreinar og er námsmat töluvert ólíkt eftir deildum og fræðasviðum. Í mörgum tilvikum er það mat deilda og fræðasviða að staðpróf séu nauðsynleg til að tryggja gæði námsmatsins,“ skrifar Róbert. 

„Vert er að taka fram að fjölmörg heimapróf eru haldin við Háskóla Íslands en í mörgum öðrum tilvikum er það mat deild, eins og áður sagði, að halda verði próf á staðnum vegna öryggis- og gæðasjónarmiða.“

Einn hefur nú greinst smitaður af Covid í prófatíð í HÍ. Vísir/Vilhelm

Isabel segir háskólann hljóta að þurfa að meta þetta að nýju, nú þegar smit hafi komið upp í prófstofu. 

„Háskólinn hefur talið sig hingað til vera að gera það sem í hans valdi stendur til að tryggja sóttvarnir, og leggja líka bara áherslu á einstaklingssóttvarnir, en okkar áhyggjur hafa snúið að því að með þessu móti er verið að safna saman hópi fólks sem er yfirleitt ekki í kring um hvort annað og það verður mikill umgangur í þessum byggingum og á milli stofa. Þetta er einmitt fólk sem er í áhættuhópum eða umgengst fólk með undirliggjandi sjúkdóma.“

Rök háskólans eigi ekki lengur við

„Hingað til hefur ekkert smit komið upp í prófatíð í Háskóla Íslands. Það er það sem háskólinn hefur verið að segja og það eru mótrökin sem við höfum verið að fá. Við þurfum að skoða þetta tiltekna mál og eiga samtal um núverandi fyrirkomulag kennslu og prófa,“ segir Isabel. 

„Við höfðum áhyggjur af því að þetta myndi gerast þó reynt væri að fremsta megni að gæta sóttvarna og öryggis. Það er bara svo erfitt að sjá fyrir útkomuna á þessu öllu. En þar sem það hefur núna gerst, samkvæmt mínum skilningi, þá horfir staðan öðruvísi við.“

„Ég tel það ljóst að það þurfi að endurskoða þetta fyrir næsta misseri, eða alla vega þessi rök að þetta sé allt í góðu lagi og reynsla komin á þetta og ekkert smit komið upp. Það á ekki lengur við,“ segir Isabel. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólaráðherra, sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að við hlytum að vera komin á þann stað í faraldrinum að geta farið að sjá fram á eðlilegra líf og aukna þátttöku í hefðbundnu skólastarfi. Það væri svo önnur umræða almennt hvort auka ætti fjarnám við háskólana. 

Klippa: Áslaug Arna um heimapróf í HÍ


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.